Fyrsti leikurinn sem aðalþjálfari: Eitthvað sem kviknar í heilanum á manni og stoppar ekkert
Víkingur náði frábærum árangri í Sambandsdeildinni, tók 8 stig úr sex leikjum og tryggði sér sæti í umspilinu um sæti í 16-liða úrslitum.
„Þetta verkefni leggst mjög vel í mig, risaverkefni og mjög spennandi. Þetta er einn af, ef ekki bara stærsti leikurinn í sögunni hjá íslensku félagsliði, og er það klárlega hjá Víkingi. Við erum bara virkilega spenntir og þakklátir fyrir að vera í þessari stöðu. Þetta er hrikalega stórt," segir Sölvi Geir Ottesen, þjálfari Víkings, um komandi leiki gegn Panathinaikos í Sambandsdeildinni.
Víkingur spilar næsta fimmtudag geng Panathinaikos í fyrri umspilssleik liðanna um sæti í 16-liða úrslitum Sambandsdeildarinnar. Viku síðar mætast liðin svo í seinni leiknum. Fyrri leikurinn, heimaleikur Víkings, fer fram í Helsinki og seinni leikurinn fer fram í Aþenu.
Víkingur varð í vetur annað íslenska félagið til að vera með lið í deildarkeppni í Evrópu. Breiðablik gerði það fyrst árið 2023 þegar liðið fór í Sambandsdeildina. Víkingur gerði hins vegar geri gott betur en Breiðablik með því að krækja í átta stig úr sínum sex leikjum og eru enn inni í keppninni þegar komið er á þetta stig.
Víkingur spilar næsta fimmtudag geng Panathinaikos í fyrri umspilssleik liðanna um sæti í 16-liða úrslitum Sambandsdeildarinnar. Viku síðar mætast liðin svo í seinni leiknum. Fyrri leikurinn, heimaleikur Víkings, fer fram í Helsinki og seinni leikurinn fer fram í Aþenu.
Víkingur varð í vetur annað íslenska félagið til að vera með lið í deildarkeppni í Evrópu. Breiðablik gerði það fyrst árið 2023 þegar liðið fór í Sambandsdeildina. Víkingur gerði hins vegar geri gott betur en Breiðablik með því að krækja í átta stig úr sínum sex leikjum og eru enn inni í keppninni þegar komið er á þetta stig.
Öðruvísi undirbúningstímabil
Vikingar spiluðu síðasta keppnisleik þann 19. desember. Eftir þann leik tók við þriggja vikna vetrarfrí hjá leikmannahópnum sem kom saman um miðjan síðasta mánuð. Á sama tíma hefur tímabilið í Grikklandi verið í fullum gangi.
„Þetta er skrítin aðstaða að vera í, eftir mjög langt tímabil í fyrra fengum við þrjár vikur til að hlaða batteríin aðeins. Síðan höfum við þurft að koma okkur tiltölulega fljótt af stað eftir að við byrjuðum aftur. Þetta er ekki eins og þau undirbúningstímabil sem við þekkjum þar sem hægt er að vinna í hinum og þessum hlutum og koma öllum hægt og rólega af stað."
„Núna hefur einbeitingin verið á því að koma öllum í gang fyrir leikina gegn Panathinaikos á innan við mánuði. Þetta er búið að vera öðruvísi, en að sama skapi skemmtilegt. Veðrið er búið að setja sitt strik í undirbúninginn okkar og þetta er búið að vera smá snúið. Í Reykjavíkurmótinu máttum við ekki spila leikmönnum, en við þurftum að koma mönnum í stand og þess vegna spiluðu þeir. Það var bara keyrt af stað," segir Sölvi sem á þar við að Víkingar tefldu fram Stíg Diljan Þórðarsyni meðvitaðir um að hann væri ekki kominn með leikheimild fyrir félagið.
Beint í djúpu laugina
Hann tók við sem þjálfari Víkings í síðasta mánuði þegar Arnar Gunnlaugsson var ráðinn þjálfari karlalandsliðsins. Sölvi hafði verið aðstoðarþjálfari Víkings síðustu þrjú tímabil á undan.
„Þetta er allt annað dæmi, mikil breyting. Það er eitthvað sem kviknar í heilanum á manni og greinilega stoppar ekkert. Þú ert að hugsa um þetta 24/7 og ábyrgðin er orðin miklu, miklu meiri en þegar maður er aðstoðarþjálfari. Þetta er búið að vera skemmtilegt, mikið að gera og maður er að læra inn á sjálfan sig sem aðalþjálfari sem hefur bara gengið vel. Mér finnst þetta virkilega spennandi verkefni og hlutverk sem ég er kominn í. Ég hlakka til að sjá mig sem aðalþjálfara og hvernig ég bregst við."
„Mér finnst þetta skemmtilegt tækifæri og finn hjá mér að ég er að taka skref upp á við í fótboltahugsun. Ég er ungur þjálfari, er ennþá að læra og hef komið í gegnum flottan skóla undir Arnari Gunnlaugssyni. Ég hlakka mjög til, þetta er búið að vera gaman en mikið að gera hins vegar. Það er bara gaman að það sé nóg að gera, það eru stórir leikir framundan og við getum ekkert verið að fara eitthvað rólega í þetta. Það hafa verið kvöld- og helgavaktir. Maður þarf að henda sér beint í djúpu laugina og vera fljótur að læra að synda."
Kemur með tímanum
Ertu búinn að uppgötva eitthvað í starfi aðalþjálfarans til þessa sem hefur komið þér á óvart?
„Þetta er nýtt hlutverk fyrir mér að vera aðalþjálfari, það er ákveðin rútína sem þú kemst í. Ég er að þróa þá rútínu núna, læra inn á hana. Ég geri mér alveg grein fyrir því að það tekur mig kannski aðeins lengri tíma heldur en Arnar og reyndari þjálfari að setja saman fundi. Það er eitthvað sem ég veit að kemur bara með tímanum, maður verður fljótur að sigta út hvað maður á að einbeita sér að."
Ekki á sama stað hvað varðar leikform
Panathinaikos er stórlið í Grikklandi. Hvernig er nálgun Víkinga fyrir þetta einvígi, er einbeitingin meiri á andstæðinganna eða sig sjálfa?
„Við þurfum auðvitað bæði að fókusera á okkur og þá. Við erum búnir að leikgreina þá og horfa á marga leiki hjá þeim til að sjá hvernig þeir spila. Við þurfum líka að átta okkur á því að við erum ekki á sama stað og þeir, þeir eru á miðju tímabili, í miklu prógrammi og þ.a.l. í miklu leikformi. Á meðan erum við kannski ekki á þeim stað. Við þurfum kannski að nálgast leikinn aðeins öðruvísi en ef við værum á miðju tímabili. Við sjáum að þetta er rosalega flott lið, góðir einstaklingar, mikil orka og kraftur í þeim. Við þurfum að bera mikla virðingu fyrir þeim, en verðum að sama skapi að koma í þetta einvígi með kassann úti og hafa trú á sjálfum okkur því það eru alveg tækifæri. Við erum búnir að sjá tækifæri til að ná í góð úrslit á móti þeim og til þess að það gerist þurfum við að vera algjörlega upp á okkar allra besta og klárir í að mæta þeim."
Kassinn út og sjálfstraustið í botn
Leitið þið í einhverja einstaka frammistöðu sem þið hafið átt áður sem þið viljið ná fram gegn Grikkjunum?
„Við horfum í frammistöðu okkar í Evrópu fyrir áramót, þurfum ekkert að leita lengra en það. Við skrifuðum söguna fyrir íslensk félagslið og áttum virkilega flotta frammistöðu. Tölfræðin úr Sambandsdeildinni talar því máli að við vorum virkilega flottir og getum verið stoltir af henni. Við getum mætt með kassann úti af því við erum búnir að vinna okkur inn fyrir því að vera keppa um að komast í 16-liða úrslitin, sem er náttúrulega galið ef þú spáir í því að við frá Íslandi séum komnir á það stig. En við erum svo sannarlega búnir að vinna okkur inn fyrir því með hrikalega flottri frammistöðu. Það er bara kassinn úti og sjálfstraustið í botni því við getum alveg strítt Panathinaikos," segir Sölvi.
Athugasemdir