U21 landsliðsmaðurinn Willum Þór Willumsson spilaði allan leikinn fyrir BATE Borisov er liðið vann sigur á Vitebsk í bikarnum í Hvíta-Rússlandi í dag.
BATE lenti undir á 25. mínútu en tókst að jafna fyrir leikhlé. Sigurmarkið kom svo í byrjun seinni hálfleiks og lokatölur 2-1 fyrir BATE sem var á heimavelli í dag.
Þetta var fyrri leikur liðanna í 8-liða úrslitum en seinni leikur liðanna fer fram í næsta mánuði á heimavelli Vitebsk.
Líklegt er að Willum verði í U21 landsliðshópnum sem tekur þátt í riðlakeppninni á lokamóti EM síðar í þessum mánuði. Það sama má segja um Kolbein Þórðarson sem var einnig í eldlínunni í kvöld. Hann spilaði rúmar 70 mínútur í 2-1 sigri Lommel á U23 liði Club Brugge í belgísku B-deildinni.
Lommel er í fjórða sæti af átta liðum þegar 22 leikir eru búnir. Það eru sex umferðir eftir, en efsta liðið fer beint upp og liðið í öðru sæti fer í umspil um sæti í efstu deild.
Í Póllandi byrjaði Aron Jóhannsson er Lech Poznan vann 0-1 sigur á Pogon Szczecin. Aron spilaði 73 mínútur í þessum góða sigri. Lech Poznan er í sjötta sæti pólsku úrvalsdeildarinnar á meðan Pogon Szczecin er í öðru sæti.
Athugasemdir