
Jökull er á leið inn í sitt annað heila tímabil sem þjálfari Stjörnunnar. Hann tók við liðinu snemma tímabils 2023 af Ágústi Gylfasyni eftir að hafa verið aðstoðarmaður Ágústs.
Jökull I. Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar, var til viðtals í hlaðvarpsþættinum Chess After Dark í vikunni. Hann var þar talsvert spurður út í þjálfarateymi sitt og umgjörðina hjá Stjörnunni.
Í þættinum sagði Jökull frá því að Stjarnan fengi aðstoð frá sérfræðingi hjá Midtjylland. Sá heitir Niklas Virtanen og er finnskur tölfræðisérfræðingur. Hann vakti athygli fyrir starf sitt hjá HJK Helsinki og var fenginn til dönsku meistaranna síðasta sumar. Þar starfar hann sem 'Sports Scientist'.
Finninn, sem er talinn mjög öflugur í sínum fræðum, er í reglulegum samskiptum við þjálfarateymi Stjörnunnar og kemur til Íslands nokkrum sinnum á ári.
„Hann er okkur innan handar varðandi öðruvísi greiningu á líkamlegu gögnunum. Við horfum á gögnin út frá öðrum sjónarhornum með öðrum, sem ekkert margir eru að gera. Við fundum með honum mjög reglulega, förum yfir einstaka æfingar, prógrammið framundan og skipuleggjum út frá því."
„Hann var í nokkur ár hjá HJK Helsinki, liðið vann finnsku deildina fjögur ár í röð og fóru í riðlakeppni Sambands- (3x) og Evrópudeildarinnar (1x). Hann er núna kominn til Midtjylland. Ég vildi fá hann í teymið okkar, sá fyrirlestur hjá honum og hafði samband við hann. Upp úr því hófst samstarf og við fengum hann með okkur." sagði Jökull.
Öflugt teymi
Björn Berg Bryde er ekki lengur aðstoðarþjálfari Jökuls en hann er með stórt teymi sér til aðstoðar. Jökull er með þá Þór Sigurðsson (styrktarþjálfari), Rajko Stanisic (markmannsþjálfari), Hákon Erni Haraldsson (leikgreinandi), Egil Atlason (sjúkraþjálfari), annan sjúkraþjálfara í fullu starfi, Örnólf Valdimarsson (læknir), bróður sinn Garp (liðsstjóri), sprettþjálfarana Boga Eggertsson og Hermann Þór Haraldsson sér til aðstoðar ásamt Niklas Virtanen.
Hákon Atli Hallfreðsson (þjálfari 2. flokks) kemur einnig inn á einstakar æfingar og hjálpar til með yngstu leikmennina og í kringum leiki eru tveir nuddarar.
Hafði engan áhuga á því að missa Bjössa
Jökull tjáði sig um brotthvarf Björns Bergs í þættinum.
„Ég orða það ekki þannig að ég hafi látið hann fara. Þetta er 'tricky' mál. Ég hafði engan áhuga á því að missa Bjössa í fyrsta lagi, finnst hann geggjaður. Ég á alveg eins von á því að við vinnum saman seinna. Mér fannst gott að vinna með Bjössa og hann er alvöru gæi; ofboðslega vel gefinn og traustur."
„Ég veit ekki hversu mikið ég vil fara út samtöl sem við áttum. Við vorum með samkomulag og ræddum hlutina opinskátt áður en við fórum af stað inn í þetta undirbúningstímabil. Það hélt það sem við ræddum og það endaði eins og það endaði. Ég held að báðir aðilar, ég og hann, hafi verið svekktir með þá niðurstöðu. Ég held að hann hafi ekki viljað hætta og ég vildi ekki missa hann. Við vorum búnir að taka samtöl um ákveðna hluti. Eitthvað af þessu hefur komið út og ég ætla ekkert að fara meira út í það. Ég vona að hann helli sér aftur út í þjálfun því ég held að hann gæti orðið öflugur. Það em ég og Bjössi ræðum er á milli okkar, ber mikla virðingu fyrir honum og þykir vænt um hann. Ég hefði ekki viljað að þetta myndi enda svona. Ég hef ekki mikla þörf á því að okkar samtöl séu úti. Ég fer ekki dýpra í það, þetta var eins og það var og leit hvernig fór," sagði Jökull í þættinum.
Athugasemdir