Nunes á blaði hjá Atletico Madrid - Pedro á radarnum hjá Liverpool - Eze orðaður við Tottenham
   fim 27. febrúar 2025 15:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Jökull: Ég er með rúmlega 20 byrjunarliðsmenn
Þjálfarinn, Jökull Elísabetarson.
Þjálfarinn, Jökull Elísabetarson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stjarnan endaði í 4. sæti á síðasta tímabili og missti af Evrópusæti.
Stjarnan endaði í 4. sæti á síðasta tímabili og missti af Evrópusæti.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Benedikt Warén kom frá Vestra.
Benedikt Warén kom frá Vestra.
Mynd: Stjarnan
Samúel Kári kom heim eftir rúman áratug í atvinnumennsku.
Samúel Kári kom heim eftir rúman áratug í atvinnumennsku.
Mynd: Stjarnan
Andri Rúnar kom frá Vestra.
Andri Rúnar kom frá Vestra.
Mynd: Fótbolti.net - Tom
Alex er mættur heim í Garðabæ.
Alex er mættur heim í Garðabæ.
Mynd: Stjarnan
Kjartan Már er mjög spennandi leikmaður sem fæddur er 2006.
Kjartan Már er mjög spennandi leikmaður sem fæddur er 2006.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Það eru fleiri sem hafa kannski verið hlédrægir en taka nú meira pláss'
'Það eru fleiri sem hafa kannski verið hlédrægir en taka nú meira pláss'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Daníel Laxdal kvaddi í lok síðasta tímabils.
Daníel Laxdal kvaddi í lok síðasta tímabils.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Sindri er miðvörður sem er mjög góður með boltann.
Sindri er miðvörður sem er mjög góður með boltann.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Samúel Kári lék á sínum tíma í þýsku úrvalsdeildinni.
Samúel Kári lék á sínum tíma í þýsku úrvalsdeildinni.
Mynd: SKF
Hilmar Árni kvaddi eftir öflugt tímabil.
Hilmar Árni kvaddi eftir öflugt tímabil.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Mér finnst við vera á skemmtilegum og áhugaverðum stað sem lið og hópur. Við erum búnir að breyta töluvert mikið til á undirbúningstímabilinu, breyttum töluvert mikið til í fyrra, fórum svolítið geyst og gerðum mikið. Við æfðum rosalega stíft í fyrra mikið af æfingum og gerðum alls konar hluti. Við höfum breytt til, erum að gera hluti núna sem við höfum ekki gert áður. Ég held að við séum á góðum stað, þetta er búið að vera þungt og erfitt, vorum að klára æfingaferð og erum að detta í aðeins léttara prógramm og stillum okkur af fyrir lokasprettinn á undirbúningstímabilinu," segir Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar, við Fótbolta.net.

Stjarnan endaði í 4. sæti Bestu deildarinnar í fyrra og hefur fengið fimm leikmenn sem út á við gera tilkall í byrjunarliðssæti (meira um það hér að neðan), einn yngri leikmann og svo tvo markmenn. Stjörnumenn voru í æfingaferð á Spáni og er Jökull ánægður með hana.

Vel lukkuð æfingaferð
„Ég er mjög ánægður með æfingaferðina, einn stór þáttur í svona ferð er að dýpka tengsli í hópnum, styrkja dýnamíkina. Það voru margir sem létu mikið að sér kveða, tóku pláss. Það var mjög gaman að sjá í hvaða átt hópurinn er að fara hvað það varðar. Við spiluðum áhugaverðan og skemmtilegan leik gegn OB. Það gekk vel á móti mjög sterku liði. Við náðum fullri æfingaviku þar sem var keyrt mjög stíft. Ég held að þetta hafi að öllu leyti verið frábær ferð."
Vonar að liðið verði öðruvísi
Jökull talar um að Stjörnumenn séu að gera nýja hluti í undirbúningnum fyrir Íslandsmótið. Býst hann við því að áhorfendur muni sjá allt öðruvísi Stjörnulið en í fyrra?

„Það er rosalega erfitt að svara því. Hverju býst þú við?"

Eina sem fréttaritara datt í hug var að vísa í úrslitaleik Þungavigtarbikarsins þar sem Stjörnuliðið var í maður á mann vörn allan völlinn gegn Breiðabliki, spilaði mjög djarft.

„Við spiluðum maður á mann vörn eiginlega allt síðasta tímabil og byrjuðum á því 2023. Það er ekki nýtt hjá okkur og er eitthvað sem ég held að mörg lið búast við af okkur, við höfum tekið það alla leið."

„Ég vona að við séum öðruvísi en við vorum í fyrra, í fyrra vorum við öðruvísi en við vorum '23. Það myndi gefa til kynna að við værum að þróast og vildum þróast, viljum vera betri, betri í ár en '24. Tilfinningin mín eftir '24 tímabilið hefðum við verið betra lið en '23 þó svo að mörgum hafi fundist við eiga að spila einhvern veginn maður á mann leik á móti sjálfum okkur til þess að halda skemmtanagildi leiksins uppi."


Skák eða hrós á Stjörnuna?
„Mér fannst við þróast mjög skemmtilega, vorum orðnir mjög góðir í að brjóta lágblokk sem er það erfiðasta sem þú gerir í fótbolta, vörn sem við mættum mjög oft. Við áttum Breiðablik í næstsíðasta leik á þeirra heimavelli, þeir voru 40% með boltann og beittu skyndisóknum og föstum leikatriðum á heimavelli. Þó að þeir tali um það sem skák þá er það samt mjög langt frá því einkenni sem Breiðablik hefur staðið fyrir síðustu ár. Það er ekkert skot á Breiðablik, heldur meira virðing á það sem við gerðum á tímabilinu og höfum gert."

„Ég vona að við verðum öðruvísi í ár, þróunin verði góð og ég vona að niðurstaðan verði þannig að við getum horft á tímabilið krítískt og niðurstaðan verði að okkur hafi fundist við hafa orðið betri."


Stendur ekki og fellur með Evrópusæti
Fóru Stjörnumenn með mjög súrt bragð í munni inn í veturinn eftir að hafa ekki náð Evrópusæti, eða voru menn brattir með það að liðið væri betra en árið áður?

„Evrópukeppni er góð og mér finnst við vera með lið sem á að vera í Evrópukeppni, erum með gott lið og stóran hóp. Við þurfum að hafa unnið fyrir því sem við gerðum ekki, gerðum ekki nóg til að verðskulda að vera í Evrópukeppni í ár. Við þolum það alveg, við verðum bara í Evrópukeppni 2026 og höldum síðan áfram."

„Mér finnst menn horfa rosalega mikið í bara þrjú stigin í dag eða bara hvernig stöðutaflan endaði. Það var margt sem við gerðum í okkar undirbúningi í fyrra sem var langtíma dæmi. Ákveðin fórnarkostnaður í því voru meiðsli sem við lentum í. Við vissum samt alltaf að til langtíma ætti það að skila okkur. Við höfðum nánast verið meiðslafríir í allan vetur þegar við lentum í mjög slæmum meiðslum á móti OB (þegar Heiðar Ægisson sleit krossband)."

„Að missa af Evrópukeppni einu sinni, það skiptir ekki miklu máli, getur komið fyrir. Við erum ekki háðir því að vera í Evrópukeppni. Ég held að menn hafi staðið frekar vel að rekstri liðsins og við höfum held ég verið með ódýrari liðum í deildinni. Við erum mjög brattir, enduðum tímabilið á að vera spila þannig fótbolta... þetta var mikið upp og niður en í lokin þá var þetta nánast komið þannig að menn vildu helst ekki hætta. Ég held að menn hafi því farið nokkuð brattir inn í veturinn þó að það væri engin Evrópukeppni, það sem við erum að gera stendur ekki og fellur með því."

Tækifæri fyrir hópinn
Milli tímabila missir Stjarnan úr leikmannahópi sínum þrjá reynslubolta því þeir Daníel Laxdal, Hilmar Árni Halldórsson og Þórarinn Ingi Valdimarsson lögðu skóna á hilluna síðasta haust. Inn í hópinn hefur Jökull fengið Samúel Kára Friðjónsson, Andra Rúnar Bjarnason og Alex Þór Hauksson sem allir búa yfir talsverði reynslu. Er eitthvað skarð sem þarf að fylla eftir að þessir reynslumiklu menn fóru úr hópnum?

„Það var geggjað að sjá að þeir gátu farið út með þeim hætti sem þeir gerðu, þó að Tóti hafi að vísu verið meiddur. Það var geggjað að sjá hvað Danni og Hilmar fengu skemmtilegan endi'. Ég horfi ekki á það þannig að við þurfum að fylla í eitthvað skarð, maður saknar alltaf góðra karaktera sem fara frá hópnum, hvort sem það er út í atvinnumennsku, hætta eða fara í önnur lið. Ég horfi miklu meira á þetta sem tækifæri fyrir hópinn. Það myndast svigrúm fyrir aðra að taka pláss og tækifæri til að stíga upp sem er bara skemmtilegt. Það er mikið af leiðtogum í þessu liði, margir leiðtogar sem ekkert endilega allir út á við líta á sem einhverja karaktera."

„Alex kemur svakalega sterkur inn sem karakter og líka sem leikmaður. Það er mjög gaman að sjá hvernig hann er að koma inn að öllu leyti. Það eru fleiri sem hafa kannski verið hlédrægir en taka nú meira pláss. Það er mjög áhugavert að fylgjast með hópnum, hvernig dýnamíkin hreyfist þegar svona breytingar verða."


Byrjunarliðsmaður fyrir utan hóp?
Það hefur verið smá umræða um Stjörnuna í vetur að liðið sé marga miðjumenn, marga leikmenn sem geta spilað sem djúpir miðjumenn. Í fljótu bragði má telja upp sjö leikmenn sem berjast um þrjár stöður á miðjunni. Það eru þeir Samúel Kári, Alex Þór, Kjartan Már Kjartansson, Guðmundur Baldvin Nökkvason, Jóhann Árni Gunnarsson, Daníel Finns Matthíasson og Baldur Logi Guðlaugsson. Fyrstu fimm hafa allir leyst stöðu djúps miðjumanns.

„Ég fylgist ekki með umræðunni en ef hún er þannig að við séum með sjö miðjumenn þá er hún hárrétt. Það er bara staðreynd. Við erum svo með fleiri leikmenn sem geta leyst miðjuna, Sindri (Þór Ingimarsson) getur leyst miðjuna, Andri Adolphs og Benó (Benedikt Warén) geta leyst miðjuna."

„Þetta eru þrjár stöður og við erum ekki í Evrópukeppni, það er alveg ljóst að ef allir eru heilir þá mun reyna á miðjumennina. Ég verð kannski spurður hvað sé mitt sterkasta lið, 'hverjir eru þínir ellefu?' Ég trúi ekki á það. Við erum með 20+ leikmenn og erum með 20+ byrjunarliðsmenn. Við munum hreyfa liðið og það verða byrjunarliðsmenn út úr hóp í hverri einustu umferð í sumar ef allir verða heilir. Þar mun reyna á. Það getur verið eftir því hvað hentar fyrir hvern leik. Þetta eru allt ólíkir leikmenn, allir að stíga upp sem er mjög skemmtilegt að sjá. Þeir virka allir frekar vel saman. Við erum með fljótandi miðju og það er því ekki þannig að það þurfi að vera einhver einn sem situr. Við viljum hafa það þannig að þessir leikmenn geti spilað úti um allt."

„Alex Þór hefur að einhverju leyti verið djúpur til þessa á sínum ferli, hann var líka skemmtilegur með KR þegar hann tók sín hlaup framar á vellinum. Hann er að spila framar hjá okkur núna. Þetta verður bara áskorun fyrir hópinn og það verða áskoranir annars staðar líka. Við erum með stóran hóp og margir sem gera tilkall. Það eru margir sem ættu að líta á sjálfan sig sem byrjunarliðsmenn, það mun reyna á einstaklingana og hópinn í heild."


Hvernig velur þú byrjunarlið hverju sinni?

„Eitt í þessu er að sumt henti betur á móti einhverju liðið heldur en öðru liði. Það getur verið að við ætlum að einbeita okkur að einhverju ákveðnu í dag og einhverju öðru næst og þá henta mismunandi eiginleikar."

„Ég horfi miklu frekar á eiginleika leikmanns en eitthvað stöðuheiti sem er stimplað á ennið á honum."

„Ég fylgist rosalega vel með hverri einustu æfingu, orkustigi leikmanna. Við sveiflumst allir, menn geta verið með svakalega jákvæða orku en svo tekið dýfu og verið þá orkuminni. Það á við um þjálfara, leikmenn og alla. Eitt mitt stærsta hlutverk hjá mér er að vera sjá hverjir eru í uppsveiflu og eru 'on it'. Ef það þýðir að einhverjir þrír miðjumenn byrji næsta leik fram yfir aðra, þá þýðir það ekki að hinir séu út úr myndinni."

„Áskorunin sem við erum oft að eiga við er að menn sem eru fyrir utan hóp túlka það oft þannig að þá séu 18 leikmenn á undan þeim og þeir sem eru á bekknum túlka það oft þannig að það séu 11 á undan þeim. Þannig hefur þetta kannski alltaf verið gert, en hjá okkur hafa menn verið fyrir utan hóp og svo byrjað næsta leik, eða öfugt. Með þeim hætti hefur hópurinn upplifað það mjög sterkt að það að vera út úr hóp er ekki að sá aðili sé 19. maður. Stundum er það bara hlutverk einhvers þann daginn. Í fullkomnum heimi taka menn því þannig að þeirra skipti hafi verið þegar við vorum úti á landi eða þegar það var snjókoma, að svekkelsið sé að þurfa að vera í þessu hlutverki þegar það var sól og stórleikur, frekar en að það sé einhver heimsendir að vera út úr hóp."

„Það er alltaf erfitt að vera út úr hóp, þetta verður alltaf 'tricky' af því að saga og reynsla manna segir að þetta hafi einhverja aðra þýðingu en það gerir hjá okkur."


Fínt ef þessi frammistaða kemur í veg fyrir sömu frammistöðu seinna á árinu
Stjarnan tapaði á þriðjudagskvöld 1-4 á móti Lengjudeildarliði Keflavíkur í Lengjubikarnum. Má skrifa það á þreytu eftir æfingaferð?

„Menn eru alltaf þungir eftir æfingaferð og eftir svona törn sem við erum búnir að taka. En það væri lélegt af okkur að ætla nota það sem afsökun. Við gátum gert betur og munum gera betur. Það er margt sem við getum tekið út úr þessum leik og fínt að einhverju leyti að fá svona ef við drögum lærdóm af því. Ef við ætlum að endurtaka þetta einhvern tímann seinna þá græddum við ekkert á því að spila þennan leik eins og við gerðum. Ef að þessi frammistaða kemur í veg fyrir eina svona frammistöðu í sumar þá er það bara fínt. Þungir eða orkulitlir, skiptir ekki máli, við eigum að geta komist töluvert betur frá svona leik en við gerðum. Ég held að við séum allir ósáttir en ég held það sé enginn heima í þunglyndi. Við þurfum að halda haus bæði þegar við vinnum stórt og þegar við töpum illa. Við eigum leik á laugardaginn gegn Leikni sem er að mörgu leyti eins. Leikurinn gegn Keflavík kom í miðju fimm daga fríi og einhverjir voru ekki til taks í leikinn. Undirbúningurinn fyrir leikinn á laugardaginn verður ekki mikill og það mun reyna á hausinn."

Klárlega pæling að spila framherjunum saman
Andri Rúnar kom frá Vestra í vetur. Er einhver hugmynd um að spila honum og Emil Atlasyni saman frammi í sumar?

„Algjörlega. Svo getur vel verið að það verði hugmynd að spila Andra og Degi Orra (Garðarssyni) saman eða Degi og Emil. Tveir senterar, Andri og Emil, sem eru báðir sterkir í boxinu. Það munu koma leikir og augnablik þar sem það hentar. Andri kemur með mjög margt, gæði inn á völlinn og mikla hugsun. Þó að hann sé líkur Emil þá er hann líka ólíkur honum. Hann kemur með mikið inn í hópinn og það á eftir að koma í ljós hvernig við útfærum þetta. Við spiluðum svolítið mikið með tvo sentera í desember/janúar, prófuðum nýtt kerfi. Það er klárlega pæling að spila þeim saman en það á eftir að koma í ljós með hvaða hætti, hvenær og hversu oft."

Sjaldséð að svo ungur djúpur miðjumaður sé í byrjunarliðinu
Kjartan Már Kjartansson hefur verið orðaður við atvinnumennsku í vetur. Gerir þú ráð fyrir því að hann byrji Íslandsmótið með Stjörnunni?

„Úr þessu þá er ég farinn að gera það, en auðvitað getur alltaf eitthvað dottið inn. Ég væri forvitinn að heyra hvað það séu margir 18 ára leikmenn að byrja sem djúpir miðjumenn í fyrsta lagi Skandinavíu og svo í Evrópu í efstu tveimur deildunum. Ég held að Kjartan sé alveg rólegur yfir því að taka annað tímabil og fara bara þeim mun sterkari út, eiga þá styttri leið inn í lið því menn eru oft hræddir við að setja unga leikmenn í þessa stöðu, svipað með miðverðina og markmannsstöðuna."

„Ég er ánægður með hann, heyri á honum að hann vill velja rétt og er ekkert að drífa sig. Hann ætlar að hafa þetta í lagi, er með sterkan og góðan haus í þessu,"
segir Jökull.
Athugasemdir
banner
banner