Everton
Eftir undirbúningstímabil í styttri kantinum mun enska úrvalsdeildin hefjast aftur þann 12. september næstkomandi. Við kynnum liðin í deildinni eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net. Í 9. sæti er Everton.
Um liðið: Everton sem félag átti tímabil til að gleyma á síðustu leiktíð. Liðið slapp ágætlega á lokadeginum þegar Bournemouth féll því Everton liðið þann daginn vantaði persónuleika, gæði og vinnslu. Jákvætt kannski fyrir Ancelotti að sjá þarna í hverju virkilega þurfti að vinna. Félagið er staðsett í Liverpool og hefur einungis eytt fjórum af 121 tímabilum utan efstu deildar - verið samfleytt í efstu deild frá 1954. Liðið varð síðast enskur meistari árið 1987 og bikarmeistari 1995.
Staða á síðasta tímabili: 12. sæti
Stjórinn: Carlo Ancelotti
Er sigurvegari sem er svalur á hliðarlínunni. Hans líkamstjáning segir oft alla söguna hvernig liðið hans er að spila. Hann er yfirleitt yfirvegaður í viðtölum og fyrir leiki en þegar hans menn inn á vellinum fylgja ekki fyrirmælum þá sést það á Carlo. Hann tók við í desember á liðinni leiktíð og náði að rétta skútuna aðeins af en Everton sýndi lítinn stöðugleika heilt yfir.
Styrkleikar:
Breiddin á miðjunni með komu Allan og Doucoure hlýtur að teljast styrkleiki. Carlo hefur fengið núna smá tíma til að hugsa hvernig hann getur stillt upp miðjunni og varnarlínunni. Everton er eitt stærsta spurningarmerkið og fróðlegt að sjá hvernig liðið kemur úr startholunum.
Veikleikar:
Karaktersleysi, viljaleysi og gæðaleysi í leik Everton er það sem einkenndi leik Everton undir lok síðustu leiktíðar. 44 mörk skoruð í 38 leikjum er einfaldlega ekki nógu gott. Gengi liðsins á heimavelli var ekki frábær en útivallarárangur var enn verri. Ancelotti tókst illa að finna réttu blönduna í liðið og ákvað að kíkja á markaðinn í sumar.
Talan: 13. Bæði Dominic Calvert-Lewin og Richarlison skoruðu þrettán mörk á síðustu leiktíð - markahæstir.
Lykilmaður: Richarlison
Brasilíski sóknarmaðurinn er besti leikmaður liðsins og var hann ásamt Dominic Calvert-Lewin markahæstur á liðinni leiktíð með þrettán mörk. Richarlison býr yfir miklum hraða og gæðum fram á við. Ancelotti þarf meira en þrettán mörk á þessari leiktíð.
Fylgstu með: Anthony Gordon
Þessi nítján ára sóknarsinnaði miðjumaður lék sinn fyrsta leik í Merseyside slagnum á liðinni leiktíð. Gordon lék átta leiki í viðbót og fékk traustið frá Carlo. Jarrad Branthwaite, 18 ára miðvörður, er einnig leikmaður sem ætti að fygljast með.
Tómas Þór Þórðarson - ritstjóri enska boltans hjá Símanum:
„Carlo Ancelotti virðist vera að móta liðið núna í þessari stuttu pásu eftir sínu höfði. Hann hefur fengið nokkuð frjálsar hendur á markaðnum og er búinn að kaupa sér nýja miðju. Ekki góðar fréttir fyrir okkar mann en þessir nýju strákar eiga nú eftir að sanna að þeir séu betri en Gylfi. Jordan Pickford verður áfram spurningamerki í markinu og þrátt fyrir að hafa skorað þrettán mörk á síðustu leiktíð er Calwert-Lewin alltof mikill rispuskorari. Hann skoraði átta af þessum þrettán mörkum í tíu fyrstu leikjunum undir Ferguson og Ancelotti en skoraði svo ekki mark né lagði upp í síðustu tíu umferðum deildarinnar. Það er allt til alls; leikmenn, stjóri og metnaður, til að ná lengra á Goodison en nú þarf það bara að fara að gerast.”
Komnir:
Abdoulaye Doucoure frá Watford - 20 milljónir
Allan frá Napoli - 22,5 milljónir
Niels Nkounkou frá Marseille - 240 þúsund
Farnir:
Maarten Stekelenburg til Ajax - Frítt
Morgan Schneiderlin til Nice - 2 milljónir
Oumar Niasse - Án félags
Fraser Hornby til Reims - 1,8 milljónir
Leighton Baines - Hættur
Fyrstu leikir: Tottenham (Ú), WBA (H) og Palace (Ú)
Þau sem spáðu: Aksentije Milisic, Anton Freyr Jónsson, Arnar Laufdal Arnarsson, Brynja Dögg Sigurpálsdóttir, Elvar Geir Magnússon, Ester Ósk Árnadóttir, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Ívan Guðjón Baldursson, Magnús Már Einarsson, Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson, Sverrir Örn Einarsson og Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke.
Liðin fengu eitt stig og upp í 20 eftir það hvar hver og einn spáði þeim. Liðið í síðasta sæti fékk eitt stig, liðið í 19. sæti tvö stig og koll af kolli. Stigin í spánni tengjast á engan hátt stigafjölda liðanna í deildinni..
Spáin:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. Everton, 146 stig
10. Southampton, 113 stig
11. Sheffield United, 101 stig
12. Burnley, 99 stig
13. Leeds, 95 stig
14. West Ham, 93 stig
15. Crystal Palace, 80 stig
16. Newcastle, 76 stig
17. Brighton, 49 stig
18. Aston Villa, 39 stig
19. Fulham, 30 stig
20. West Brom, 20 stig
Sjá einnig:
Draumaliðsdeild Budweiser og Fótbolta.net búin að opna
Athugasemdir