Forgangsatriði fyrir Man Utd að fá Gyökeres - Zirkzee til Aston Villa?
   sun 06. september 2020 16:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Spáin fyrir enska - 11. sæti
Sheffield United
Spútnikliði síðasta tímabils er spáð góðu gengi í ár.
Spútnikliði síðasta tímabils er spáð góðu gengi í ár.
Mynd: Getty Images
Chris Wilder.
Chris Wilder.
Mynd: Getty Images
John Lundstram og Chris Basham.
John Lundstram og Chris Basham.
Mynd: Getty Images
Aaron Ramsdale.
Aaron Ramsdale.
Mynd: Getty Images
Marki fagnað á síðustu leiktíð.
Marki fagnað á síðustu leiktíð.
Mynd: Getty Images
Eftir undirbúningstímabil í styttri kantinum mun enska úrvalsdeildin hefjast aftur þann 12. september næstkomandi. Við kynnum liðin í deildinni eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net. Í 11. sæti er Sheffield United.

Um liðið: Sheffield United féll úr ensku úrvalsdeildinni 2007 á eftirminnilegan hátt. Árin eftir það voru erfið og var liðið í C-deild frá 2012 til 2017. Svo kom heimamaðurinn Chris Wilder til sögunnar, hann reif liðið upp úr C-deild og upp í úrvalsdeildina í fyrra. Liðið kom mjög á óvart á sínu fyrsta tímabili í úrvalsdeild eftir að allir höfðu spáð þeim neðsta sæti.

Staða á síðasta tímabili: 9. sæti.

Stjórinn: Chris Wilder heitir stjóri Sheffield United. Hann spilaði frá 1986 til 1992 hjá félaginu og aftur frá 1998 til 1999. Hann hefur sem stjóri stýrt Halifax, Oxford og Northampton áður en hann tók við Sheffield United. Hann er stuðningsmaður Sheffield United og er því með mikla ástríðu fyrir félaginu.

Styrkleikar: Leikmannahópurinn er mjög samstilltur og eru leikmennirnir tilbúnir að hlaupa á vegg fyrir Wilder. Liðið er óhrætt og spilar góðan fótbolta með þriggja manna vörn. Wilder spilaði mikið með sama lið á síðustu leiktíð og var ekki mikið að breyta, sérstaklega varnarlega. Það er erfitt að koma á Bramall Lane og sækja þrjú stig.

Veikleikar: Þegar maður lítur yfir hópinn þá sér maður ekki marga leikmenn, ef einhverja, sem geta skorað meira en tíu mörk í ensku úrvalsdeildinni. Liðið skapaði ekki mikið af færum á síðustu leiktíð, þó liðið hafi nýtt þau vel. Liðið missti Dean Henderson, einn besta markvörð ensku úrvalsdeildarinnar, en fékk til sín Aaron Ramsdale. Það er stórt skarð sem hann er að fylla í.

Talan: 6. Oli McBurnie var markahæsti leikmaður Sheffield United í deildinni í fyrra með sex mörk.

Lykilmaður: Chris Basham. Liðsheildin er lykilmaður Sheffield United en ef maður ætti að velja einhvern einn þá er það Chris Basham. Traustur varnarmaður. Er 32 ára gamall en ferill hans hefur ekki alltaf verið dans á rósum. Hann var leystur undan samningi hjá Newcasle þegar hann var 16 ára og fór þá að vinna á McDonald's. Síðan þá hefur hann komið langa leið. Hann kemur mikið fram á völlinn og er góður að bera boltann upp. Kallaður 'Bashambaueur’ af stuðningsmönnum.

Fylgstu með: Aaron Ramsdale
Kemur nýr inn í liðið og fyllir skarðið sem Dean Henderson skilur eftir. Það er stórt skarð og mikil ábyrgð á herðar Ramsdale. Hann var leikmaður ársins hjá Bournemouth sem féll úr ensku úrvalsdeildinni í fyrra.

Tómas Þór Þórðarson - ritstjóri enska boltans hjá Símanum:
„Og hvað svo? Þetta hlýtur að vera spurningin sem maður spyr sig um kónginn Chris Wilder og stálstrákana í Sheffield United. Eins og staðan er núna er liðið nánast óbreytt nema búið er að skipta um markvörð; Ramsdale fyrir Henderson. Er eitthvað að fara að breytast hjá Wilder? Líklega ekki. Hann hefur spilað þetta 3-5-2 kerfi í hverjum einasta leik frá því hann tók við fyrir fjórum árum. Það vita allir hvað 'The Blades' ætla að gera í hverjum leik en erfitt er að stoppa þá. Heldur Wilder ákefðinni í 38 leiki í viðbót? Liðið er ekki nógu hæfileikaríkt til að spila undir 100 prósent krafti og það verður verkefnið fyrir Wilder í vetur.“

Komnir:
Wes Foderingham frá Rangers - Frítt
Aaron Ramsdale frá Bournemouth - 18,5 milljónir punda

Farnir:
Dean Henderson til Man Utd - Var á láni
Luke Freeman til Nottingham Forest - Á láni

Fyrstu leikir: Wolves (H), Aston Villa (Ú), Leeds (H).

Þau sem spáðu: Aksentije Milisic, Anton Freyr Jónsson, Arnar Laufdal Arnarsson, Brynja Dögg Sigurpálsdóttir, Elvar Geir Magnússon, Ester Ósk Árnadóttir, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Ívan Guðjón Baldursson, Magnús Már Einarsson, Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson, Sverrir Örn Einarsson og Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke.

Liðin fengu eitt stig og upp í 20 eftir það hvar hver og einn spáði þeim. Liðið í síðasta sæti fékk eitt stig, liðið í 19. sæti tvö stig og koll af kolli. Stigin í spánni tengjast á engan hátt stigafjölda liðanna í deildinni.
.

Spáin:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10. ?
11. Sheffield United, 101 stig
12. Burnley, 99 stig
13. Leeds, 95 stig
14. West Ham, 93 stig
15. Crystal Palace, 80 stig
16. Newcastle, 76 stig
17. Brighton, 49 stig
18. Aston Villa, 39 stig
19. Fulham, 30 stig
20. West Brom, 20 stig

Sjá einnig:
Draumaliðsdeild Budweiser og Fótbolta.net búin að opna
Athugasemdir
banner
banner