Orri Steinn Óskarsson skoraði fyrsta mark okkar manna gegn Svartfjallalandi í gær þegar Ísland vann 2-0. Um er að ræða fyrsta leikinn í Þjóðadeildinni þetta árið.
Á dögunum skipti Orri Steinn um félag. Eftir að hafa farið frá Gróttu árið 2019 og verið í tvö ár hjá aðalliði FCK gekk hann í raðir Real Sociedad á Spáni. Spænska liðið borgaði 20 milljónir evra fyrir kappann en Gylfi Þór Sigurðsson er eini Íslendingurinn sem hefur kostað meira. Hann fór til Everton frá Swansea á sínum tíma fyrir 50 milljónir punda.
Orri Steinn er uppalinn í Gróttu en slúðrað hafi verið um að Grótta fái 200 til 300 milljónir króna vegna sölunnar. Grótta er í Lengjudeildinni og eiga leik gegn ÍR í Breiðholtinu á morgun. Með tapi fellur Grótta niður í 2. deildina eftir 6 ár í A og B deild.
Orri segist vera ánægður að Grótta sé að fá pening fyrir skiptin.
„Mér er alveg sama um það og það kemur mér ekkert við (hvað Grótta gerir við peninginn). En auðvitað er ég glaður að uppeldisfélagið fái sína prósentu og vonandi geta þeir nýtt það til að gera gott við sig og bæta umhverfið ennþá meira. Vonandi komast þeir upp í Bestu deildina aftur, þótt að hlutirnir eru ekki alveg að ganga nógu vel núna þá vill maður auðvitað sjá þá ganga sem best.“
„Sociedad gat gefið mér fullt sem City gat ekki"
Orri Steinn var orðaður við Manchester City áður en hann var tilkynntur sem nýr leikmaður Real Sociedad.
„Maður hefur auðvitað heyrt um áhuga þegar hann kemur. Þá er auðvitað skemmtilegt og mikill heiður að heyra að þeir hafi áhuga. Þeir eru með stærstu klúbbum í heiminum og auðvitað væri geðveikt að fá lærdóm frá Erling Haaland. En mér fannst Sociedad mjög heillandi og það var eiginlega ekki hægt að segja nei við því.“
Orri segir að ein stærsta ástæðan afhverju hann valdi Sociedad var því þar fengi hann að spila en ekki hjá Manchester City.
„Nei ekki svo ef ég á að segja. Mér líður best þegar ég er að spila mikið, fæ traust og er í lykilhlutverki. Ég finn mig ekkert mjög mikið að vera á bekknum og vera varaskeifa. Auðvitað var það skemmtilegt að vita af áhuganum en Sociedad gátu gefið mér fullt sem Man City gat ekki gefið mér. Það var þá auðvitað frábær kostur.“