lau 08. janúar 2022 14:17
Brynjar Ingi Erluson
Fótbolti.net mótið: Stjarnan skoraði sex upp á Skaga - Öruggt hjá Leikni
Eggert Aron Guðmundsson átti góðan leik er Stjarnan vann ÍA
Eggert Aron Guðmundsson átti góðan leik er Stjarnan vann ÍA
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Leiknismenn unnu frábæran sigur í Kórnum
Leiknismenn unnu frábæran sigur í Kórnum
Mynd: Haukur Gunnarsson
Stjarnan gerði sér góða ferð upp á Akranes er liðið mætti ÍA í A-deild Fótbolta.net mótsins í dag en Stjarnan vann 6-0 sigur í riðli 2 á meðan Leiknir R. sigraði HK, 4-0, í riðli 1 í Kórnum.

ÍA 0 - 6 Stjarnan
0-1 Emil Atlason ('1 )
0-2 Óskar Örn Hauksson ('7 )
0-3 Ísak Andri Sigurgeirsson ('34 )
0-4 Þorsteinn Már Ragnarsson ('58 )
0-5 Jóhann Árni Gunnarsson ('69 )
0-6 Eggert Aron Guðmundsson ('75 )

Stjörnumenn byrjuðu með látum. Emil Atlason skoraði af stuttu færi eftir rúmlega 50 sekúndur. Gestirnir pressuðu Skagamenn inn í vítateig, unnu boltann og skoruðu.

Óskar Örn Hauksson bætti við öðru marki á 7. mínútu. Eggert Aron Guðmundsson átti stórkostlega sendingu á Óskar sem kláraði vel af stuttu færi.

Hilmar Árni Halldórsson lagði upp þriðja markið á 34. mínútu fyrir Ísak Andra Sigurgeirsson áður en flautað var til loka fyrri hálfleiks.

Þorsteinn Már Ragnarsson og Jóhann Árni Gunnarsson gerðu næstu tvö mörk áður en Eggert Aron kórónaði frábæran leik sinn með sjötta markinu. Lokatölur 6-0 fyrir Stjörnuna.

HK 0 - 4 Leiknir R.
Mörk Leiknis: Daníel Finns Matthíasson 2, Karan Gurung og sjálfsmark.

Leiknismenn unnu góðan 4-0 sigur á HK í Kórnum. Gestirnir skoruðu tvívegis á tíu mínútna kafla í fyrri hálfleik og bættu síðan við tveimur til viðbótar í þeim síðari.

Það vakti mikla athygli að hinn 13 ára gamli Karan Gurung kom við sögu hjá Leikni og skoraði gegn HK-ingum. Gríðarlegt efni þar á ferð.

Þetta var fyrsti leikur beggja liða í riðli 1. Breiðablik og Keflavík eru í riðli með Leikni og HK en liðin eigast nú við á Kópavogsvelli og er staðan 3-1 fyrir Blikum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner