Napoli í viðræðum um Garnacho - Villa hafnaði tilboði West Ham í Duran - Vlahovic orðaður við Chelsea
   mán 08. apríl 2024 12:01
Hafliði Breiðfjörð
Vestri lenti í bílveltu eftir leik - Leikmaður fluttur á sjúkrahús í bænum
Sergine Fall var fluttur á sjúkrahús í Reykjavík í nótt.
Sergine Fall var fluttur á sjúkrahús í Reykjavík í nótt.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Elmar Atli Garðarsson fyrirliði Vestra fyrir leikinn í gær. Hann ákvað að fylgja leikmanni sínum með sjúkrabílnum suður í nótt.
Elmar Atli Garðarsson fyrirliði Vestra fyrir leikinn í gær. Hann ákvað að fylgja leikmanni sínum með sjúkrabílnum suður í nótt.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Betur fór en á horfðist en Fall er þó líklega rifbeinsbrotinn.
Betur fór en á horfðist en Fall er þó líklega rifbeinsbrotinn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bílslys varð í gærkvöldi þegar lið Vestra keyrði heim aftur til Ísafjarðar eftir fyrsta leik liðsins í Bestu-deild karla þegar liðið mætti Fram í Úlfarsárdalnum og eftir skoðun á Hvammstanga var ákveðið að einn leikmanna liðsins þyrfti að fara til Reykjavíkur með sjúkrabíl.

Lestu um leikinn: Fram 2 -  0 Vestri

Misstu stjórn á bílnum eftir að skóf inn á veginn
„Einn af þremur bílum hjá okkur varð fyrir því óláni að velta á leiðinni til Ísafjarðar og það þurfti að senda einn af okkar mönnum suður með sjúkrabíl," sagði Samúel Samúelsson hjá Vestra við Fótbolta.net í dag.
Samúel ásamt Guðmundi Torfasyni formanni Fram fyrir leikinn í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Sergine Fall sem byrjaði leikinn gegn Fram var sá sem slasaðist en hann var í fyrsta bílnum af þremur.

„Aðstæður voru ekki góðar, það hafði skafið inn á veginn og þegar þeir keyrðu í einn skaflinn misstu þeir stjórn á bílnum og hann valt. Þeir voru ekki á miklum hraða þegar þetta gerðist en hinir tveir bílarnir komu að þeim þegar þeir höfðu lent í bílveltunni. Menn voru í nettu sjokki," sagði Samúel.

Fyrirliðinn fylgdi sínum manni suður með sjúkrabílnum
Leikmennirnir voru fluttir með sjúkrabíl til Hólmavíkur til skoðunar og þar voru þeir útskrifaðir að Fall undanskildum sem var fluttur til Reykjavíkur með sjúkrabíl. Elmar Atli Garðarsson fyrirliði liðsins tók ábyrgðina á aðstæðum og valdi að fylgja sínum manni suður með sjúkrabílnum.

„Menn höfðu haldið að þetta væri eitthvað innvortis en ég fékk skýrslu frá fyrirliðanum um 04:30 í nótt þess efnis að þetta væri ekki eins slæmt og óttast hafði verið og hann væri í mesta lagi rifbeinsbrotinn," sagði Samúel.

Hefði átt að láta leikmennina gista í bænum í nótt
Hann sagði að leikmenn liðsins hafi afráðið að gista á Hólmavík í nótt og lagt af stað til Ísafjarðar klukkan 09:00 í morgun. Allir væru í lagi í þeim hópi.

Samúel sagði að á sínum árum í fótboltanum sé þetta í fyrsta skipti sem eitthvað slíkt hendir en hann veltir nú fyrir sér hvort hann hefði átt að gera eitthvað öðruvísi.

„Við áttum flug heim í gær en því var aflýst, þess vegna keyrðum við vestur. Þetta er eitthvað sem við verðum að skoða innan félagsins, við erum vanir að fara bara upp í bíl og keyra hvað sem tautar og raular," sagði Samúel.

„Ég hefði bara átt að láta strákana gista í bænum í nótt og taka flugið í morgun. Fyrst það var ekki flogið var ákveðið að keyra af stað og það er ákvörðun sem ég tók og stend og fell með því."
Athugasemdir
banner
banner
banner