mið 08. júlí 2020 21:24
Brynjar Ingi Erluson
England: Salah skoraði tvö og lagði upp eitt í sigri á Brighton
Mohamed Salah skoraði tvö og lagði upp eitt
Mohamed Salah skoraði tvö og lagði upp eitt
Mynd: Getty Images
Brighton 1 - 3 Liverpool
0-1 Mohamed Salah ('6 )
0-2 Jordan Henderson ('8 )
1-2 Leandro Trossard ('45 )
1-3 Mohamed Salah ('76 )

Liverpool ætlar að gera heiðarlega tilraun að því að bæta stigametið í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili en liðið vann Brighton 3-1 í 34. umferð deildarinnar í kvöld.

Tæpar tvær vikur eru liðnar frá því Liverpool varð meistari en liðið á enn möguleika á að því að bæta nokkur met áður en tímabilið klárast.

Liverpool byrjaði leikinn af krafti í kvöld en leikmenn Brighton gerðu sig seka um slæm mistök strax á 5. mínútu. Matthew Ryan, markvörður Brighton, lagði boltann á Davy Pröpper sem átti hræðilega fyrstu snertingu. Naby Keita stal boltanum af honum, lagði hann á Roberto Firmino sem hefði alveg eins getað skotið á markið sjálfur, en lét boltann rúlla framhjá sér í átt að Mohamed Salah sem skoraði örugglega.

Átjánda mark Salah í deildinni. Tveimur mínútum síðar bætti Jordan Henderson við öðru marki. Hann vann boltann á miðjunni, kom boltanum á Salah, sem var fljótur að finna Henderson aftur.

Henderson mundaði skotfótinn fyrir utan teig og söng boltinn í netinu. Ekkert sem Ryan gat gert við þessu.

Heimamönnum tókst að minnka muninn undir lok fyrri hálfleiks er belgíski vængmaðurinn Leandro Trossard skoraði úr teignum. Vörn Liverpool gaf nokkrum sinnum eftir í leiknum í þægilegri stöðu og því ekki óvænt að heimamenn náðu inn marki.

Þegar hálftími var eftir af leiknum voru Brighton-menn nálægt því að jafna eftir hornspyrnu. Dan Burn fékk boltann við fjærstöngina en mistókst á einhvern ótrúlegan hátt að koma boltanum í netið.

Liverpool refsaði fyrir það. Salah gerði þriðja mark leiksins á 76. mínútu eftir hornspyrnu. Andy Robertson fann þá kollinn á Salah sem átti ekki í vandræðum með að stanga boltann inn. Nítjánda deildarmarkið.

Lokatölur 3-1 fyrir Liverpool sem er með 92 stig á toppnum þegar fjórir leikir eru eftir. Liðið þarf aðeins þrjá sigra í viðbót til að bæta stigamet Manchester City frá 2018 og eins og útlitið er núna þá eru ágætis líkur á því. Brighton er á meðan í 15. sæti með 36 stig og níu stigum frá fallsæti.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner