Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 08. ágúst 2022 12:45
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Norrköping búið að tilkynna nýjan þjálfara (Staðfest)
Mynd: Norrköping
Í síðustu viku var greint frá því að Glen Riddersholm væri líklegastur til að taka við sænska félaginu IFK Norrköping. Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, hafði verið í umræðunni um að taka við starfinu en sænska félagið tilkynnti í dag að Riddersholm væri nýr þjálfari liðsins.

Rikard Norling var látinn fara sem þjálfari Norrköping fyrir um mánuði síðan og hefur félagið leitað að arftaka hans síðan.

Riddersholm, sem er fimmtugur, hefur á sínum ferli þjálfað FC Midtjylland, U17 landslið Danmerkur, AGF, SönderjyskE og síðast verið aðstoðarþjálfari Genk í Belgíu. Árið 2015 varð hann danskur meistari sem þjálfari Midtjylland en hætti skömmu síðar.

Anes Mravac og Vedran Vucicevic sem hafa stýrt Norrköping undanfarin mánuð munu snúa aftur í sín störf sem aðstoðarþjálfarar.

Norrköping er mikið Íslendingafélag en fimm Íslendingar eru á mála hjá félaginu. Þeir Andri Lucas Guðjohnsen, Ari Freyr Skúlason og Arnór Sigurðsson eru leikmenn aðalliðsins. Oliver Stefánsson er á láni frá félaginu hjá ÍA og Jóhannes Kristinn Bjarnason er leikmaður unglingaliðsins. Þá hefur Arnór Ingvi Traustason verið orðaður við endurkomu til félagsins en hann er í dag leikmaður New England Revolution.

Norrköping er í 11. sæti Allsvenskan með nítján stig eftir sautján leiki. Liðið vann sinn fyrsta leik í tvo og hálfan mánuð þegar liðið vann Degerfors á laugardag. Leikurinn endaði 2-0 og skoraði Arnór Sigurðsson seinna markið.
Athugasemdir
banner
banner
banner