fim 08. september 2022 11:41
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Opið bréf FH vekur mikla athygli - „Aldrei verið styrkur Viðars að segja satt og rétt frá"
Viðar Halldórsson.
Viðar Halldórsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Skessan.
Skessan.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Inn í Skessunni.
Inn í Skessunni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Frá Ásvöllum.
Frá Ásvöllum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leik hjá Haukum í sumar.
Úr leik hjá Haukum í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
FH-ingar eru ósáttir við það hversu miklum fjármunum er verið að eyða í nýtt knattspyrnuhús fyrir nágrannana í Haukum.

FH er með þrjú fótboltahús á sínu svæði en stefnt er að því að Haukar fái sitt fyrsta hús á næstu árum. Stefnt er að því að það verði tekið í notkun í október 2024.

Viðar Halldórsson, formaður FH, ritaði pistil í gær þar sem hann gagnrýnir bæjaryfirvöld í Hafnarfirði harðlega.

„Í dag virðast bæjaryfirvöld vera á lokametrum við ákvarðanatöku um byggingu nýs knatthúss á Ásvöllum sem að lágmarki mun kosta 4.5 milljarða, byggja einn fótboltavöll fyrir ámóta upphæð og kostar að byggja góðan grunnskóla eða fjóra leikskóla," skrifar Viðar.

„Hvernig réttlæta núverandi bæjaryfirvöld þessar gríðalega háu upphæðir sem í okkar huga er verið að kasta út um gluggann nú í upphafi sem stofnkostnaður og síðan í áratugi hundruði milljóna á ársgrundvelli í rekstur og fjármagnskostnað?"

Viðar segir að önnur íþróttafélög í bænum séu í mikilli þörf á bættri aðstöðu. „Fyrir þá milljarða sem myndu sparast við að byggja hús sambærilegt Skessunni á Ásvöllum væri hægt að stórbæta aðstöðu fjölmargra annarra íþróttafélaga í Hafnarfirði, bæjarbúum til mikilla hagsbóta."

Hann tekur það fram í pistlinum að samkomulag hafi verið gert á milli FH og Hafnarfjarðarbæjar um byggingu Skessunnar sem hljóðaði upp á 790 milljónir króna. Skessan er síðasta fótboltahúsið sem var byggt í Kaplakrika.

Hægt er að lesa bréf Viðars í heild sinni með því að smella hérna en hann segir þar einnig:

„Fimleikafélagið hefur nú á síðustu mánuðum verið að skoða og velta upp þeirri stöðu sem við erum í og einnig hvernig við stöndum fjárhagslega með það í huga að milljörðum sé dreift í önnur félög hér í bæ. Á sama tíma erum við í Fimleikafélaginu með eign í mannvirkjum sem nálgast tvo og hálfan milljarð. Svo til öll íþróttamannvirki í Hafnarfirði utan Kaplakrika eru í eigu Hafnarfjarðarbæjar. Við FH-ingar höfum verið að rembast í ártugi með eigin fjárfestingar, lántökur (langtímalán Fimleikafélagsins ca. 630 milljónir), fjármagnskostnað og mikla vinnu til að ná sem hagkvæmustu verðum okkur og við héldum bæjarfélaginu til heilla. En til hvers, það virðist öllum vera sama, peningarnir virðast vaxa á trjánum og munum við því á næstu dögum óska eftir formlegum viðræðum við Hafnarfjarðarbæ um að þeir kaupi okkar eignarhlut í mannvirkjunum Í Kaplakrika."

Fyrrum formaður Hauka segir Viðar ljúga
Ágúst Sindri Karlsson, fyrrum formaður Hauka, blandaði sér í umræðuna og hann segir að Viðar fari með rangt mál í þessum pistli sínum.

„Það hefur aldrei verið Viðars styrkur að segja satt og rétt frá. Tilboð í húsið er 3,4 ma. þar af kemur lóðasala með 1,25 ma. Þannig að þetta eru nettó 2,2. Uppbygging á Kaplakrika 2007-2013 nam 3-4 ma kr. þar af voru keyptar dýrustu lyftingargræjur fáanlegar," skrifar Ágúst Sindri á Facebook.

Það er ljóst að Haukar eru ósáttir við þetta bréf. „Síðan fengu þeir gefins íþróttahús. Svo kemur bullið um sjálfboðavinnu þegar allt eigið fé er gjöf frá Guðmundi Árna (Stefánssyni, fyrrum bæjarstjóra). Samt áhugavert að þeir skulda 630mkr. Ég vissi ekki að þeir væru í svona vondum málum," skrifar Ágúst Sindri.

Bæjarstýran svarar
Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstýra Hafnarfjarðarbæjar, segir í samtali við Fréttablaðið að Viðar fari ansi frjálslega með kostnaðartölur.

„Þessi við­brögð koma mér ekki á ó­vart og því miður ekki í fyrsta sinn sem for­maður FH stígur svo harka­lega fram og berst gegn þessari fram­kvæmd. Held það hljóti að vera ein­stakt að for­svars­maður í­þrótta­fé­lags beiti sér svo ákaft gegn upp­byggingu í­þrótta­mann­virkis annars í­þrótta­fé­lags. Þarna er farið vægast sagt frjáls­lega með kostnaðar­tölur. Mikil þörf er á knatt­húsi á Ás­völlum enda er húsið er í þeim hluta bæjarins þar sem nær öll í­búða­upp­bygging síðustu ára hefur verið. Húsið mun þannig þjóna nýjasta hverfi bæjarins en í­búar þess verða um 13 þúsund innan nokkurra ára," segir Rósa.

„Mikil undir­búnings­vinna hefur farið fram undan­farin ár vegna þessarar fram­kvæmdar. Þarna verður allrar hag­kvæmni gætt og þarna mun rísa hús sem mun nýtast vel. Allir flokkar studdu þessa upp­byggingu á Ás­völlum í síðustu kosningum og fyrsta verk nýrrar bæjar­stjórnar í sumar var að sam­þykkja að fara í út­boð vegna fram­kvæmdarinnar."

Haukar hafa lengi barist fyrir því að fá knatthús en líkt og fyrr segir er vonast til þess að það verði komið í notkun í október 2024. Það verði með glæsilegasta móti, eitthvað sem FH-ingar telja ekki vera nauðsynlegt.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner