Spænska félagið Real Madrid er komið í úrslit Ofurbikars Spánar eftir 3-0 sigur liðsins á Real Mallorca í Jeddah í Sádi-Arabíu í kvöld.
Sigur Madrídinga var verðskuldaður og rúmlega það. Fyrsta markið kom hins vegar ekki fyrr en á 63. mínútu er Jude Bellingham skoraði úr teignum eftir stórskotahríð.
Rodrygo átti tilraun sem var varin út á Kylian Mbappe. Hann skaut í varnarmann úr dauðafæri áður en boltinn datt fyrir Bellingham sem var í engum vandræðum með að koma Madrídingum í forystu.
Evrópu- og Spánarmeistararnir bættu við tveimur mörkum til viðbótar í uppbótartíma.
Annað markið var sjálfsmark Martin Valjent eftir sendingu Brahim Diaz. Boltinn var á leið til Mbappe sem var að komast í dauðafæri en Valjent hjálpaði aðeins til með því að pota boltanum sjálfur í eigið net.
Rodrygo kórónaði frábæra frammistöðu Madrídinga með skoti af stuttu færi eftir laglega fyrirgjöf frá Lucas Vazquez á hægri vængnum.
Real Madrid mætir Barcelona í El Clasico í úrslitaleiknum sem fer fram á sunnudag.
Athugasemdir