Orri Steinn Óskarsson var í byrjunarliði Real Sociedad sem tók á móti fallbaráttuliði Espanyol í spænska boltanum í dag.
Sheraldo Becker tók forystuna fyrir heimamenn snemma leiks og var staðan 1-0 eftir þægilegan fyrri hálfleik fyrir Sociedad, þar sem gestirnir í liði Espanyol gerðu sig aldrei líklega til að skora.
Síðari hálfleikurinn fór þó illa af stað fyrir heimamenn því Javi Puado jafnaði metin með marki úr vítaspyrnu strax á 51. mínútu. Það var lítið að frétta eftir jöfnunarmarkið svo þjálfari Sociedad ákvað að gera þrefalda skiptingu, þar sem Orra Steini var meðal annars skipt útaf.
Það var ekki fyrr en á 84. mínútu sem heimamönnum í liði Sociedad tókst að gera sigurmark, þegar varamaðurinn Brais Méndez skoraði eftir undirbúning frá Jon Ander Olasagasti sem hafði einnig komið inn af bekknum.
Lokatölur urðu því 2-1 fyrir Sociedad sem er núna fjórum stigum frá Evrópusæti. Espanyol er einu stigi fyrir ofan fallsæti.
Valencia er í fallsæti en liðið hefur verið á góðu skriði síðan Carlos Corberán var ráðinn til starfa. Liðið tók á móti Leganés í dag og sigraði þriðja deildarleikinn af síðustu fjórum.
Cristhian Mosquera og Mouctar Diakhaby skoruðu mörkin í fyrri hálfleik í 2-0 sigri. Leganés er einu stigi fyrir ofan Valencia.
Getafe hafði að lokum betur í fallbaráttuslag gegn Alavés. Mauro Arambarri gerði eina mark leiksins úr vítaspyrnu.
Heimamenn í liði Alavés voru talsvert sterkari aðilinn í síðari hálfleik en tókst ekki að skora. Þeir sitja því áfram í fallsæti, með 21 stig eftir 23 umferðir. Getafe er með 27 stig.
Real Sociedad 2 - 1 Espanyol
1-0 Sheraldo Becker ('1 )
1-1 Javi Puado ('51 , víti)
2-1 Brais Mendez ('84 )
Alaves 0 - 1 Getafe
0-1 Mauro Arambarri ('44 , víti)
Valencia 2 - 0 Leganes
1-0 Cristhian Mosquera ('30 )
2-0 Mouctar Diakhaby ('41 )
Athugasemdir