Antoine Semenyo, Bruno Fernandes, Nicolas Jackson og fleiri koma við sögu.
banner
   sun 21. desember 2025 12:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Fjölskyldan ræður för og Atli heldur heim - „Bestu árin mín í KR og bestu ár ævi minnar"
Titlarnir ekki það sem stendur upp úr
'Það er frábær tilfinning og mikil spenna fyrir því að klæðast treyjunni aftur'
'Það er frábær tilfinning og mikil spenna fyrir því að klæðast treyjunni aftur'
Mynd: Ármann Hinrik
'Okkur fannst þetta rétti tímapunkturinn fyrir fjölskylduna að flytja norður og vera nær fólkinu okkar'
'Okkur fannst þetta rétti tímapunkturinn fyrir fjölskylduna að flytja norður og vera nær fólkinu okkar'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Það sem maður tekur með sér er bara allt fólkið sem maður hefur kynnst'
'Það sem maður tekur með sér er bara allt fólkið sem maður hefur kynnst'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ég var í stúkunni á lokaleiknum hjá Þór og það var erfitt að vera ekki inná vellinum þá'
'Ég var í stúkunni á lokaleiknum hjá Þór og það var erfitt að vera ekki inná vellinum þá'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það er frábær tilfinning og mikil spenna fyrir því að klæðast treyjunni aftur. Ég var í stúkunni á lokaleiknum hjá Þór og það var erfitt að vera ekki inn á vellinum þá."

Þetta segir Atli Sigurjónsson sem í lok síðasta mánaðar skrifaði undir tveggja ára samning við uppeldisfélagið Þór.

Hann er að flytja aftur til Akureyrar með fjölskyldu sinni eftir rúman áratug fyrir sunnan þar sem hann spilað lengst með KR en einnig með Breiðabliki. Atli og kærasta hans, Gígja Valgerður Harðardóttir, eiga tvær dætur, þær Nadíu Leu og Írenu Röfn.

Fótboltinn aukaatriði
„Það er auðvitað mjög freistandi að fá að taka þátt í þessu með Þór en á sama tíma er ég 34 ára fótboltamaður á Íslandi þannig hvar fjölskyldan mín ætlar að búa og hvar stelpurnar mínar fara í skóla og annað veltur ekki á því hvar ég vil spila fótbolta."

„Okkur fannst þetta rétti tímapunkturinn fyrir fjölskylduna að flytja norður og vera nær fólkinu okkar. Það er bara bónus að við séum að fara spila í efstu deild, en það gerði ákvörðunina klárlega auðveldari."


Markmiðið einfalt
Hvað langar þig að gera með Þór?

„Markmiðið er auðvitað að halda sætinu. Það er gríðarlega erfitt fyrir lið sem koma upp svo það er frekar einfalt markmið."

„Þvílík forréttindi sem ég mun lifa á lengi"
Atli var í tólf tímabil hjá KR og er þriðji leikjahæsti leikmaður félagsins á þessari öld. Í leikjunum 238 skoraði hann 38 mörk. Atli varð tvisvar sinnum Íslandsmeistari með KR og tvisvar sinnum bikarmeistari.

Tíminn í KR, gengur þú sáttur frá borði?

„Ég er bara mjög sáttur við tímann minn hér í KR, hann leið fljótt en það sem maður tekur með sér er bara allt fólkið sem maður hefur kynnst. Ég er búinn að fá gríðarlega mörg skilaboð send og eiga mörg samtöl við fólk hérna í hverfinu og kann virkilega að meta það."

„Þegar það er spurt um hápunkta þá hugsar maður yfirleitt um titlana fyrst en þeir skilja í rauninni ekki mikið eftir sig, þótt það hafi verið geggjað þegar á því stóð. Ég átti nokkur ár með dætrum mínum hér sem eru bestu árin mín í KR og bestu ár ævi minnar."

„Eins og hjá fleirum þá þurfti að brúa bilið eftir fæðingarorlof þar til þær komust inn á leikskóla þannig þær voru með mér bara á nánast öllum æfingum, sérstaklega sú yngri eftir að við fórum að æfa eingöngu í hádeginu. Þær mættu með mér fyrir æfingu, sváfu í vagninum á meðan æfingu stóð og komu svo með í ræktina, mat eða annað. Þetta voru þvílík forréttindi sem ég mun lifa á lengi."


Fókusinn kominn á næsta tímabil
Hvernig var tímabilið 2025?

„Þetta sumar fór bara eins og það fór, ég nenni voða lítið að vera spá i því svona eftir á. Ég held það sé alveg nóg af fólki sem er tilbúið að greina það betur og ég er bara kominn með fókusinn á næsta tímabil," segir Atli að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner