fim 09. mars 2023 08:00
Ívan Guðjón Baldursson
Arteta orðaður við Real: Einbeittur að Arsenal
Jesus er kominn með 5 mörk og 7 stoðsendingar það sem af er tímabils.
Jesus er kominn með 5 mörk og 7 stoðsendingar það sem af er tímabils.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, hefur verið nefndur sem mögulegur arftaki Carlo Ancelotti hjá Real Madrid.


Sífellt háværari orðrómur segir þetta vera síðasta tímabil Ancelotti við stjórnvölinn í Madríd og er Arteta sagður vera ofarlega á lista hjá Real.

Arteta er ekki fyrsti stjóri Arsenal til að vera orðaður við starfið hjá Real Madrid en Arsene Wenger var einnig orðaður við það í áraraðir, án þess að skipta yfir. Wenger segist hafa hafnað tveimur tækifærum til að taka við Real því hann vildi halda tryggð við Arsenal.

„Þetta eru hlutir sem við þjálfarar eða leikmenn höfum enga stjórn á. Eina sem ég get sagt er að ég er fyllilega einbeittur að starfi mínu hér hjá Arsenal. Ég er virkilega þakklátur fyrir þetta starf og stoltur af verkefninu sem ég er að vinna hjá þessu fótboltafélagi. Það er allt," svaraði Arteta þegar hann var spurður út í Real Madrid á fréttamannafundi fyrir leik Arsenal gegn Sporting í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar.

Arteta var í kjölfarið spurður út í Gabriel Jesus sem hefur verið fjarverandi vegna meiðsla undanfarna mánuði. Jesus æfði með Arsenal í gær en ekki hefur verið tilkynnt hvort hann ferðist með hópnum út eða ekki.

„Við munum tilkynna leikmannahópinn á morgun. Við tókum góðan hóp með okkur út en þið fáið ekki að sjá hverjir það eru fyrr en á morgun."

Arsenal mætir í leikinn án sóknarmanns þar sem Eddie Nketiah er meiddur. Þá er Leandro Trossard, sem hefur verið að spila sem fölsk nía, einnig að glíma við meiðsli.

„Við ætlum ekki að taka neinar áhættur með að láta hann spila alltof snemma. Það er mikilvægt að fá hann aftur til baka, það getur veitt liðinu aukinn kraft og innblástur á lokasprettinum. Gabriel þarf tíma til að koma sér aftur í fullkomið stand líkamlega og til að finna sama sjálfstraust og áður. Þegar þessir hlutir eru komnir í lag þá fær hann meiri spiltíma."


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner