Haaland verður með riftunarákvæði - Real Madrid ætlar að fá Saliba - Antony til Newcastle?
   mán 09. apríl 2018 10:23
Elvar Geir Magnússon
Damir: Árið í fyrra rosalega erfitt fyrir mig og fólkið í kringum mig
Damir Muminovic, varnarmaður Breiðabliks, hefur gengið í gegnum ýmislegt sem aðrir þekkja ekki.
Damir Muminovic, varnarmaður Breiðabliks, hefur gengið í gegnum ýmislegt sem aðrir þekkja ekki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Damir og Gunnleifur Gunnleifsson markvörður.
Damir og Gunnleifur Gunnleifsson markvörður.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Damir Muminovic, einn besti miðvörður Pepsi-deildarinnar undanfarin ár, fer yfir lífshlaup sitt í einlægu viðtali við BlikarTV. Þar segir hann frá fótboltaferlinum og frá því þegar hann flutti til Íslands ásamt móður sinni þegar hann var tíu ára gamall. Móðir hans lést vegna krabbameins á síðasta ári.

Damir verður 28 ára í næsta mánuði en hann er lykilmaður hjá Breiðabliki.

Hann þekkir föður sinn ekki neitt og veit ekkert hvar hann er niðurkominn í dag.

„Faðir minn yfirgaf okkur þegar ég var tveggja eða þriggja ára. Ég hef ekkert séð hann síðan þá. Ég hef þannig séð ekkert leitað eftir því að reyna að finna hann eða hitta hann," segir Damir og segist ekki vita hver ástæðan var fyrir því að hann yfirgaf sig og móður sína á sínum tíma.

Í vinahóp sem vildi skemmta sér í bænum
Damir fór að æfa fótbolta með Stjörnunni þegar hann kom til Íslands en hann flutti til frænda síns, Boban Ristic, sem spilaði þá með Garðabæjarliðinu. Hann flutti svo í Kópavoginn og mætti á örfáar æfingar hjá Breiðabliki áður en hann hélt í HK.

Sautján ára gamall var hann farinn að spila með meistaraflokki HK í efstu deild en tók hliðarbeygju í lífinu þegar hann var um átján ára.

„Ég kynntist fullt af fólki sem hafði ekki áhuga á íþróttum heldur einhverju öðru. Ég var kominn í vinahóp sem var frekar að skemmta sér niðri í bæ en að hugsa um fótbolta. Þegar það var helgi fór maður frekar niður í bæ að fá sér bjór en að hugsa um æfingu eða næsta leik. Mamma var í þremur vinnum svo ég gæti átt gott líf, sem ég átti en var sjálfur ekki að gefa mikið til baka. Maður sér það í dag."

Íhugaði að hætta í boltanum
2011 segist Damir hafa velt því fyrir sér að hætta í fótbolta. Hann var samningslaus hjá HK en fékk þá símtal frá Willum Þór Þórssyni sem þá var nýtekinn við Leikni í Breiðholti.

„Hann sagðist hafa mikinn áhuga á að fá mig en að hann hefði heyrt slæma hluti um mig. Ég sagði að það ástand væri búið. Hann fær mig yfir í Leikni og þá fer ferillinn upp á við. Það var tekið alveg svakalega vel á móti manni, klúbburinn var frábær og liðið í kringum hann. Mér leið mjög vel hjá Leikni," segir Damir.

Eftir eitt ár hjá Leikni fer Damir í Víking Ólafsvík í efstu deild.

„Við féllum úr Pepsi-deildinni en ég var með það markmið að halda áfram að spila í deildinni. Ég átti spjall við Ólaf Kristjánsson (þá þjálfara Breiðabliks), ég vildi fara í Breiðablik til að bæta sjálfan mig og vera hjá besta þjálfara Íslands á þessum tíma," segir Damir sem hefur verið hjá Blikum síðustu fjögur tímabil.

Rosalega erfitt ár
Í fyrra lést móðir hans eftir að hafa greinst með krabbamein.

„Þetta gerist mjög hratt, á einhverju ári. Árið í fyrra var rosalega erfitt fyrir mig og fjölskyldu mína og fólkið í kringum mig. Það truflaði mig mjög mikið inni á vellinum. Hún var hetjan mín og gerði allt fyrir mig. Maður áttar sig ekki ennþá á því hvað er búið að gerast. Fótboltinn hjálpaði mér mjög mikið í fyrra eftir þetta. Ef ég hefði ekki verið í fótbolta og haft strákana í liðinu í kringum mig hefði þetta verið enn erfiðara."

Damir hefur öflugan stuðning við bakið á sér í dag. Er í sambandi, á tveggja ára dóttur og það er annað barn á leiðinni.

„Maður er mjög heppinn," segir Damir en hægt er að sjá þetta einlæga viðtal í sjónvarpinu hér að neðan.


Athugasemdir
banner
banner
banner