Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   þri 09. apríl 2024 12:15
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Ekki búið að skipta um gervigras í Kórnum - „Viljum auðvitað fá nýtt gras sem fyrst"
Úr leik í Kórnum frá því í fyrra.
Úr leik í Kórnum frá því í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
HK er að bíða eftir því að geta skipt um gervigras í Kórnum. Upphaflega átti að gera það milli jóla og nýárs en svo var því frestað fram að páskum. Ekkert varð úr því að skipt væri um gervigras um páskana.

Núverandi gervigras í Kórnum hefur fengið mikla gagnrýni og talað um að það sé ekki boðlegt í efstu deild. Fótbolti.net ræddi við Hjört Þór Steindórsson sem er formaður knattspyrnudeildar HK.

„Þetta er í vinnslu, það var útboð á grasinu sem Kópavogsbær hélt utan um. Verktakinn sem átti að gera það gat ekki klárað verkefnið. Það er annað útboð 22. apríl og þá er gert ráð fyrir því að farið verði í framkvæmdir einhverjum vikum eftir það - Kópavogsbær heldur utan um það." Samkvæmt heimildum Fótbolta.net hafði verktakinn ekki þau réttindi sem þarf til að fara í framkvæmdirnar.

Eruð þið HK-ingar með einhvern óskatíma hvenær það myndi henta ykkur best að farið yrði í framkvæmdirnar?

„Sem fyrst. Gert er ráð fyrir því að þetta taki um þrjár vikur, það þarf bara að finna einhvern góðan tíma í það í sumar. Hvar við spilum á meðan er eitthvað sem við þurfum að ræða við Kópavogsbæ. Það er líka spurning hvernig þetta spilast, hvort það riðlast einhverjir leikir út frá veðurfæri eða öðru."

Grasið sem er í Kórnum, er það alltof gamalt?

„Það er leikheimild á grasinu, allt í lagi að spila á grasinu - bara að vökva það. En eins og í öllu þá er betra að vera með eitthvað nýtt. Það átti að gera þetta tvisvar í vetur en þurfti að fresta því. Það var óheppilegt að sá aðili sem var með lægsta gilda tilboðið gat því miður ekki klárað sig af verkinu."

„Við viljum auðvitað fá nýtt gras sem fyrst, það er alltaf betra en gras sem er nokkurra ára gamalt."

„Þegar Blikarnir voru að skipta um gras hjá sér og spiluðu annars staðar í fyrra - kusu að spila á Fylkisvelli. Það er alveg möguleiki líka. Við þurfum bara að ræða við bæinn hvernig sé best að gera þetta."


Spilað fyrir utan Kórinn sumarið 2026?
„Það á að byggja stúku við hliðina á Kórnum sem er megaspennandi," segir Hjörtur. Verið er að skoða hönnun á því og HK-ingar vonast til að geta spilað úti sumarið 2026, stúkan gæti verið svipuð þeirri sem er við Framvöllinn í Úlfarsárdal. „Það yrði svaka lyftistöng fyrir klúbbinn," sagði formaðurinn.
Athugasemdir
banner
banner