Martin O'Neill er tekinn við stjórn á Skotlandsmeisturum Celtic sem bráðabirgðaþjálfari út tímabilið.
O'Neill er 73 ára gamall og tekur við Celtic í annað sinn á tímabilinu. Hann tekur við eftir að Wilfried Nancy var rekinn í dag.
O'Neill var upprunalega ráðinn sem bráðabirgðaþjálfari eftir að Brendan Rodgers sagði starfi sínu lausu til að taka við Al-Qadsiah í Sádi-Arabíu í haust.
Hann stóð sig gríðarlega vel þegar hann tók við af Rodgers í október. O'Neill stýrði Celtic í rúman mánuð og vann liðið sjö af átta leikjum sínum undir hans stjórn. Hann lét af störfum þegar Nancy var ráðinn sem aðalþjálfari Celtic í desember. Nú er hann ráðinn aftur 33 dögum síðar.
O'Neill gerði mjög góða hluti við stjórnvölinn hjá Celtic frá 2000 til 2005 áður en hann var ráðinn til Aston Villa. Hann er enn í dag sá þjálfari liðsins sem er með hæsta sigurhlutfall sögunnar - eða rúmlega 75%.
Celtic er sex stigum á eftir toppliði Hearts í skosku úrvalsdeildinni, með 38 stig eftir 20 umferðir.
Manager Update
— Celtic Football Club (@CelticFC) January 5, 2026
Athugasemdir




