Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   þri 09. júlí 2019 08:00
Ingibjörg Hinriksdóttir
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Einu sinni VAR
Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Það er varla annað hægt en að byrja á því að byrja forláts á því að stinga niður penna eftir að hafa haft mig hæga í allmörg ár. En það lifir lengi í gömlum glæðum og nú þegar Heimsmeistaramóti kvenna í knattspyrnu er ný lokið er ekki annað hægt en ydda blýantinn og pára þættinum bréf.

Fyrir rúmum átta árum skrifaði ég grein hér á fótbolta.net sem bar fyrirsögnina Mikilvægustu þátttakendur leiksins. Þar gerði ég knattspyrnudómara að umtalsefni og þótti miður að það væri aldrei neinn sem héldi með þeim.

Fyrir átta árum skrifaði ég: „Dómarar eru einn mikilvægasti þáttur þess að gera knattspyrnuna að þeirri vinsælu íþrótt sem hún er.“

Það er enda rétt að það væri enginn fótboltaleikur ef ekki væri dómari til að tryggja að allir fari eftir reglum leiksins. En dómarar, líkt og aðrir mannlegir menn eiga það á hættu að gera mistök. Það kom því ekki á óvart að FIFA ákvað að taka upp svokallaða marklínutækni til að meta hvort knötturinn væri innan eða utan marklínu.

Svo fóru að koma kröfur um allskonar aðrar tæknibrellur sem áttu að létta dómurunum lífið, meðal annars hin svokallaða VAR (Video Assistance Referee) tækni. Á vef FIFA kemur fram að VAR tækninni er fyrst og síðast ætlað að ákvarða:

- hvort mark hafi verið skorað
- hvort dæma skuli vítaspyrnu
- hvort vísa skuli leikmanni af velli
- hvort réttur leikmaður hafi fengið refsingu

Eftir að hafa horft á allmarga leiki á HM kvenna þá verð ég að segja að ég er hugsi yfir þessari tækni allri og það jafnvel þó ég hafi fengið það staðfest sem ég sagði fyrir átta árum að hlutverk dómara sé að hvorki sjást né heyrast. Er samt ekki fulllangt gengið að loka þá inni í búri, í dómara búningi. Ég held það!

Það fer alltof mikill tími í VAR, nánast undantekningalaust var uppbótartíminn í riðlakeppninni 7 mínútur í hvorum hálfleik. Leiktíminn lengdist úr því að vera 90 mínútur í 104.

Takturinn var með þessu tekinn úr leiknum, ábyrgð dómarans á vellinum minnkuð og þrjár huldukonur sáu um dómgæslu. Hvað verður langt þangað til að hljóðnemi verður settur á alla leikmenn svo dómarinn geti dæmt um það hvort einhver leikmaðurinn kallar annan niðrandi nafni eða hefur í frammi kynþáttafordóma? Er það ekki örugglega næst?

Það er óhætt að segja að ég er ekki hrifin af þessum breytingum, hreint ekki. En tæknin hefur án efa létt líf og starf dómarnana, núna þarf bara að koma böndum á tæknina.

Hvað segir þú t.d. um að þjálfarar, sem þess vegna geta haft aðstoðarmenn klædda liðsbúningum í stúdíói, hafi 2 möguleika á VAR dómgæslu í leiknum? Er það ekki bara nóg? Leyfum dómurunum áfram að hafa áhrif á leikinn og gera okkur brjáluð öðru hvoru. Án þeirra væri leikurinn ekki næstum því eins skemmtilegur.
Athugasemdir
banner
banner
banner