"Sérfræðingar" höfðu ekki mikla trú á Sandefjord fyrir tímabilið í norsku úrvalsdeildinni í fyrra.
Félagið, sem var með tvo Íslendinga innanborðs - Emil Pálsson og Viðar Ara Jónsson - náði hins vegar að halda sér uppi örugglega.
„Við náðum að troða ákveðnum sokk upp í einn aðalsérfræðinginn fyrir norsku deildina," sagði Emil í útvarpsþættinum Fótbolta.net í gær.
Joacim Jonsson, sérfræðingur Eurosport, hafði nákvæmlega enga trú á Sandefjord fyrir tímabilið. Sandefjord notaði orð hans sem hvatningu á leiktíðinni.
„Hann henti í þá sleggju fyrir tímabilið að við værum lélegasti hópur sem hefðum verið í deildinni á þessari öld, frá 2000. Þetta var besta hvatning sem liðið gat fengið. Það var prentuð út mynd af þessum ummælum og hengt upp í klefanum."
„Við gerðum vel og vorum aldrei nálægt því að falla. Við vorum lengi um miðja deild og enduðum að lokum í 11. sæti."
Emil segir að Jonsson hafi lofað því að fá sér húðflúr af hval ef Sandefjord myndi halda sér uppi, en Sandefjord er hvalabær. Nú er spurning hvort sérfræðingurinn standi við stóru orðin.
Emil átti gott tímabil með Sandefjord þar sem hann var nokkuð oft með fyrirliðabandið. Hann er núna að leita sér að nýju félagi.
Útvarpsþáttinn frá því í gær má hlusta á hér að neðan.
Athugasemdir