Zidane hefur augastað á Man Utd - Guimaraes áfram hjá Newcastle - Bayern hefur ekki rætt við Rangnick
   þri 10. janúar 2023 23:18
Brynjar Ingi Erluson
Ítalski bikarinn: Parma úr leik eftir hetjulega baráttu
Buffon verður 45 ára í þessum mánuði en hér hefur hann betur í einvígi við Edin Dzeko
Buffon verður 45 ára í þessum mánuði en hér hefur hann betur í einvígi við Edin Dzeko
Mynd: EPA
Inter 2 - 1 Parma
0-1 Stanko Juric ('38 )
1-1 Lautaro Martinez ('88 )
2-1 Francesco Acerbi ('110 )

Inter er komið áfram í 8-liða úrslit ítalska bikarsins eftir að hafa unnið Parma, 2-1, eftir framlengingu.

Stanko Juric kom B-deildarliði Parma yfir á 38. mínútu með stórkostlegu skoti af löngu færi upp í samskeytin hægra megin. Hann fékk svo annað slíkt færi stuttu síðar en Andre Onana sá við honum.

Undir lokin fyrri hálfleiksins vildi Inter fá vítaspyrnu er Stefan de Vrij var tekinn niður í teignum. Dómarinn dæmdi ekkert en var beðinn um að skoða atvikið í VAR-skjánum. Hann breytti ekki niðurstöðu sinni eftir nánari skoðun og staðan í hálfleik 1-0 fyrir Parma.

Parma var grátlega nálægt því að halda þetta út í þeim síðari en tveimur mínútum fyrir leikslok jafnaði Lautaro Martinez er hann hirti frákastið.

Edin Dzeko fékk svo mínútu síðar tækifæri til að tryggja Inter áfram en hinn 44 ára gamli Gianluigi Buffon varði frábærlega frá honum og kom Parma í framlengingu.

Hann náði þó ekki að koma í veg fyrir sigurmark Inter á 110. mínútu er Francesco Acerbi skoraði með þrumuskalla við vítateigslínuna og yfir Buffon í markinu. Stórbrotið sigurmark hjá Acerbi.

Inter er því komið áfram í 8-liða úrslit eftir annars hetjulega baráttu Parma.
Athugasemdir
banner