Klopp hefur áhuga á Malen - Hvert fer Osimhen? - Juventus leitar að manni í stað Pogba - Man Utd og Chelsea berjast um brasilískan miðjumann
banner
   lau 10. júní 2023 12:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Hafa margoft rætt um starfið og álagið - Alltaf sama niðurstaðan
Vel fagnað síðasta laugardag. 'Ég kemst alltaf að sömu niðurstöðu að þetta er þess virði'
Vel fagnað síðasta laugardag. 'Ég kemst alltaf að sömu niðurstöðu að þetta er þess virði'
Mynd: Getty Images
Síðustu mánuði hefur ekki nokkur skapaður hlutur komist að annað en þetta.
Síðustu mánuði hefur ekki nokkur skapaður hlutur komist að annað en þetta.
Mynd: Getty Images
Freyr Alexandersson, þjálfari Lyngby, var í viðtali hér á Fótbolti.net í vikunni. Hann fór yfir tímabilið í Danmörku sem einkenndist af fallbaráttu liðsins. Freyr hélt alltaf í trúna á að liðið myndi ná að halda sér uppi og þurfti að ná að láta aðra trúa svo hægt væri að klára verkefnið. Það tókst honum og Lyngby hélt sér uppi í lokaumferðinni.

Freysi var spurður út í síðustu vikur, kemst eitthvað annað en liðið og næsti leikur? Hefuru tíma fyrir eitthvað annað?

„Nei, ekki neitt. Þó að maður reyni að vera til staðar, hvort sem það er fyrir fjölskyldu eða vini og reynir að setja hugann á eitthvað, þá kemst ekkert annað að. Maður er stanslaust að undirbúa sjálfan sig andlega, undirbúa starfsliðið, vera til staðar fyrir leikmennina og undirbúa þá taktískt, líkamlega og andlega. Maður er líka að stjórna upp á við, hafa stjórn á klúbbnum; yfirmönnum mínum og að reyna tengjast stuðningsmönnunum. Síðustu mánuði hefur ekki nokkur skapaður hlutur komist að annað en þetta. Það eru ansi margir lausir endar sem ég þarf að laga í mínu persónulega lífi núna."

Freysi sagði í viðtali síðasta laugardag eftir að sætið var tryggt að hann myndi verja kvöldinu með fjölskyldu sinni. Hann sagði að vikan sem nú sé að líða væri síðasta vinnuvikan í bili. Fríið er kærkomið en þó alls ekki langt því stutt er í næsta tímabil í Danmörku.

„Ég er endanlega kominn í frí á laugardaginn og tek tíu daga frí. Ég þarf á því að halda, ég er kannski ekki alveg tæmdur, en ef ég ætla vera klár í næstu orrustu þá þarf ég aðeins að kúpla mig út og endurhlaða batteríin."

Hefuru síðustu mánuði hugsað hvort að þetta sé þess virði?

„Já, ég hef oft hugsað það og ekki bara núna síðustu mánuði heldur síðan ég tók þessa ákvörðun að vera þjálfari. Ég og mín kona höfum oft rætt það og ég kemst alltaf að sömu niðurstöðu að þetta er þess virði."

„Þetta er ekkert dans á rósum, þetta er ekki það sem við manneskjur köllum eðlilegt líf. En fyrir mig og mína fjölskyldu hefur þetta orðið að eðlilegu lífi og við reynum að aðlaga okkur í kjölfarið. Það gengur ágætlega, við eigum frábærar stundir og það er ekkert sem jafnast á við það sem er búið að gerast núna síðustu vikur. Fjölskyldan er jafnmikið í þessu og ég, þannig þetta er allt þess virði. En já, ég hef margoft spurt mig þeirrar spurningar af hverju ég fór ekki bara í Steypustöðvar bransann með pabba,"
sagði Freysi.
Leið næstum yfir Freysa - „Ótrúlega stoltur að hafa staðið með sjálfum mér"
Athugasemdir
banner
banner