Giuseppe Marotta, stjórnarmaður hjá Inter og formaður íþróttamála hjá félaginu, er að sjálfsögðu spenntur fyrir úrslitaleik Meistaradeildarinnar þar sem Inter mætir Manchester City í kvöld klukkan 19 í Istanbúl.
„Það eru miklar tilfinningar en ég er vanur því. Við erum komnir alla leið í úrslitaleikinn og það er eitthvað sem ekki verður auðvelt að leika eftir," segir Marotta.
„Leikmenn fóru út á völl í gær og snertu grasið. Þeir hafa ekki leikið áður úrslitaleik í Meistaradeildinni en eru óttalausir. Við erum með mjög hæfan stjóra, það verða miklar tilfinningar á leiðinni á leikvanginn en um leið og menn stíga inn á völlinn þá gleymast þær."
„Félagið hefur ekki verið í úrslitaleiknum í þessari keppni í þrettán ár. Þetta er sjötti úrslitaleikurinn í sögu félagsins. Við eigum okkur draum og vonandi verður hann að veruleika. Mesta hrósið fer til þjálfarans," segir Marotta en Simone Inzaghi, stjóri Inter, er sérfræðingur í útsláttarkeppnum. Hann hefur aðeins tapað einum leik af tuttugu í útsláttarkeppnum hjá Inter.
Athugasemdir