mið 10. júlí 2024 13:15
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Sterkust í 12. umferð - Martröð að dekka hana
Hulda Ósk Jónsdóttir (Þór/KA)
Hulda Ósk Jónsdóttir.
Hulda Ósk Jónsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hulda Ósk er mjög öflugur leikmaður.
Hulda Ósk er mjög öflugur leikmaður.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hulda Ósk Jónsdóttir, kantmaður Þórs/KA, er sterkasti leikmaður tólftu umferðar Bestu deildar kvenna í boði Steypustöðvarinnar. Hulda Ósk lagði upp öll fjögur mörkin í 2-4 sigri gegn Þrótti á dögunum.

„Hulda Ósk var mögnuð í leiknum og í nánast hvert einasta skipti sem hætta skapaðist við mark andstæðinganna þá hafði hún komið að undirbúningnum úti á hægri vængnum. Meðal annars með því að leggja upp öll fjögur mörk Þórs/KA," skrifaði Hafliði Breiðfjörð í skýrslu sinni frá leiknum.

Hulda Ósk og Sandra María Jessen ná einstaklega vel saman en Sandra gerði þrennu í leiknum.

„Það var gott að hitta á Söndru og Karenu því þær klára alltaf. Ég hef ekki áhyggjur af því, ég er með fjórar stoðsendingar í dag en er ekki alveg að telja þetta, þær eru einhverjar í viðbót. Ég er best á kantinum og við erum búnar að vera með tvo frammi svolítið í sumar en mér finnst mjög gott að vera á kantinum," sagði Hulda eftir leikinn.

Sandra María var spurð út í tenginguna við Huldu fyrir landsliðsæfingu í gær.

„Ég held að Hulda Ósk sé leikmaður sem er mjög oft vanmetin. Hún er ótrúlega hæfileikarík og ég held að það sé martröð fyrir alla leikmenn að dekka hana. Þú veist aldrei hvað hún er að fara að gera," sagði Sandra María.

„Við náum að tengja okkar styrkleika saman og skila inn mörkum."

Þór/KA situr í þriðja sæti Bestu deildarinnar, níu stigum frá efstu tveimur liðunum - Val og Breiðabliki.

Sterkastar í fyrri umferðum:
11. umferð - Anna María Baldursdóttir (Stjarnan)
10. umferð - Katrín Ásbjörnsdóttir (Breiðablik)
9. umferð - Selma Dögg Björgvinsdóttir (Víkingur R.)
8. umferð - Jasmín Erla Ingadóttir (Valur)
7. umferð - Kristrún Rut Antonsdóttir (Þróttur)
6. umferð - Caroline Van Slambrouck (Keflavík)
5. umferð - Karen María Sigurgeirsdóttir (Þór/KA)
4. umferð - Agla María Albertsdóttir (Breiðablik)
3. umferð - Amanda Andradóttir (Valur)
2. umferð - Sandra María Jessen (Þór/KA)
1. umferð - Amanda Andradóttir (Valur)
Hulda Ósk: Gott að hitta á Söndru og Karenu því þær klára alltaf
Er átta mörkum á undan næstu - „Ég er bara með hausinn heima"
Athugasemdir