Tveir miðverðir orðaðir við Liverpool - Graham Potter næsti landsliðsþjálfari Englands? - Arsenal líklegast til að fá Merino - Man City vill fá...
   mið 10. júlí 2024 07:00
Brynjar Ingi Erluson
Copa America: Messi skoraði sitt fyrsta mark er Argentína fór í úrslit
Lionel Messi fagnar fyrsta marki sínu á mótinu
Lionel Messi fagnar fyrsta marki sínu á mótinu
Mynd: Getty Images
Julian Alvarez gerði annað mark sitt
Julian Alvarez gerði annað mark sitt
Mynd: EPA
Argentína 2 - 0 Kanada
1-0 Julian Alvarez ('22 )
2-0 Lionel Andres Messi ('51 )

Argentínska landsliðið er komið áfram í úrslitaleik Copa America eftir að hafa unnið 2-0 sigur á Kanada í kvöld. Þetta er í annað sinn í röð sem Argentína spilar til úrslita.

Argentínumenn voru með öll völd á leiknum og líklegri til afreka. Það kom því lítið á óvart þegar Julian Alvarez kom þeim í forystu á 22. mínútu eftir sendingu Rodrigo De Paul inn fyrir vörnina.

Alvarez var kominn einn á móti Maxime Crepeau, markverði Kanada, og gerði allt mjög yfirvegað. Hann rúllaði boltanum á milli lappa Crepeau og í netið.

Annað mark hans á mótinu og annað markið gegn Kanada, en hann skoraði líka í 2-0 sigrinum í riðlakeppninni.

Messi komst nálægt því að bæta við öðru seint í fyrri hálfleiknum en skot hans rétt framhjá markinu. Kanada var nálægt því að jafna stuttu síðar.

Lang innkast kom á nærstöngina og á Jonathan David sem náði skoti en Emiliano Martínez varði meistaralega. Þetta var það síðasta sem gerðist í fyrri hálfleiknum, en það voru Argentínumenn sem héldu áfram að sækja í þeim síðari.

Á 51. mínútu skoraði Lionel Messi fyrsta mark sitt á mótinu og var smá heppnisstimpill yfir því.

Enzo Fernandez átti skot frá vítateigslínu og í átt að Messi sem rétt náði að pota honum áfram í netið. VAR skoðaði hvort Messi hafi verið rangstæður þegar Enzo skaut boltanum, en það var hann ekki og staðan orðin 2-0.

Alvarez var nálægt þriðja markinu nokkrum mínútum síðar en afgreiðslan ekki nægilega góð.

Leikurinn róaðist næstu mínútur og fóru Argentínumenn að búa til vandræði upp úr engu. Rodrigo De Paul, oft kallaður lífvörður Messi, lá í grasinu þegar Ismael Kone ákvað að pota boltanum í átt að baki hans, en De Paul lék það eins og einhver hafi skotið hann með haglabyssu.

Kone og Jesse Marsch, þjálfari Kanada, fengu báðir gult spjald. Kone fyrir verknaðinn en Marsch fyrir mótmæli.

Tanitoluwa Oluwaseyi fékk tvö góð færi til að skora undir lok leiksins. Fyrst fékk hann dauðafæri vinstra megin í teignum eftir að Argentínumenn töpuðu boltanum en þá varði Martínez frábærlega með löppunum. Tveimur mínútum síðar fékk hann stórkostlegt skallafæri eftir fyrirgjöf frá vinstri en hann stangaði boltanum rétt framhjá markinu.

Ágætis lokakafli hjá Kanada en ekki nóg. Argentína fer í úrslitaleikinn í annað sinn í röð og mætir þar Kólumbíu eða Úrúgvæ.
Athugasemdir
banner
banner
banner