Monchi er yfirmaður íþróttamála hjá Aston Villa og svaraði hann spurningu um kólumbíska framherjann Jhon Durán sem hefur verið afar eftirsóttur á síðustu mánuðum.
Durán er aðeins 20 ára gamall og braust fram í sviðsljósið með mikilli markaskorun á síðustu leiktíð þrátt fyrir lítinn spiltíma.
Hann hefur haldið áfram uppteknum hætti á nýrri leiktíð þar sem hann er kominn með tvö mörk í þremur úrvalsdeildarleikjum, þrátt fyrir að hafa alltaf komið inn af bekknum og spilað samtals í um það bil 90 mínútur í leikjunum þremur.
„Við höfum mikla trú á Durán. Ef það er eitt félag í heiminum sem hefur virkilega trú á honum þá er það Aston Villa og ef það er einn þjálfari þá er það Unai Emery," sagði Monchi.
„Það eru ekki minna en 40 félög sem hafa áhuga á Durán en Emery hefur mikla trú á honum. Hann trúir að Durán geti orðið einn af bestu framherjum í heimi."
Chelsea, West Ham og AC Milan voru meðal félaga sem sýndu Durán áhuga í sumar og viðurkennir Monchi að framherjinn vildi fara.
„Hann vildi skipta um félag en það er bara útaf því að hann vill meiri spiltíma. Það er ekkert óeðlilegt við það. Núna er allt í góðu, hann er ánægður hjá Aston Villa."
Athugasemdir