City vill Wirtz - Lookman orðaður við Newcastle og Man Utd - White gæti snúið aftur í landsliðið
   lau 10. desember 2022 21:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
HM: Giroud hetja Frakka í mögnuðum leik - England úr leik
England 1 - 2 Frakkland
0-1 Aurelien Tchouameni ('17 )
1-1 Harry Kane ('54 , víti)
1-2 Olivier Giroud ('78 )
1-2 Harry Kane ('84 , Misnotað víti)

Heimsmeistarar Frakklands munu mæta Marokkó í undanúrslitunum á HM í Katar eftir sigur á Englandi í hreint út sagt mögnuðum fótboltaleik í kvöld.

Frakkarnir byrjuðu af miklum krafti og þeir tóku forystuna eftir 17 mínútna leik. Það var Aurelien Tchouameni, miðjumaðurinn efnilegi, sem skoraði markið með þrumuskoti fyrir utan teig. Jordan Pickford náði ekki að koma í veg fyrir markið.

England vildi fá víti um miðbik fyrri hálfleiks en fengu það ekki.

Í byrjun seinni hálfleiks fengu þeir hins vegar vítaspyrnuna þegar Bukayo Saka féll innan teigs. Tchouameni, sem kom Frakklandi yfir, var brotlegur - klaufalegt hjá honum.

Harry Kane fór á vítapunktinn og skoraði af miklu öryggi fram hjá liðsfélaga sínum í Tottenham, Hugo Lloris.

England byrjaði seinni hálfleikinn frábærlega og virtust heimsmeistararnir skelkaðir eftir jöfnunarmarkið. Frakkarnir róuðust hins vegar og þeir náðu að komast aftur yfir á 78. mínútu þegar Oliver Giroud skoraði flott mark.

Eftir að Frakkland komst 2-1 yfir þá gerði England breytingu. Mason Mount kom inn á og hann var ekki lengi að næla í aðra vítaspyrnu fyrir Englendinga.

Theo Hernandez gerðist sekur um ótrúlega heimskulegt brot á Mount og vítaspyrna var dæmd eftir VAR-skoðun.

Kane fór aftur á punktinn en í þetta sinn setti hann boltann langt yfir markið. Grátlegt fyrir fyrirliða Englendinga sem eru á heimeið. Eins og á EM í fyrra - og svo oft í fortíðinni - þá eru það vítaspyrnur sem eru Englendingum að falli.

Leikurinn í dag var mögnuð skemmtun, en England þarf áfram að bíða. Þeir unnu síðast stórmót árið 1966. Líklegt er að þetta hafi verið síðasti leikur Gareth Southgate sem landsliðsþjálfara Englands en það kemur í ljós á næstunni.

Eins og áður segir þá er það ljóst að Frakkland mætir Marokkó í undanúrslitum.
Athugasemdir
banner
banner
banner