Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   þri 11. maí 2021 14:40
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Villi: Fjórða markið þeirra var kjaftshögg
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Delaney Baie Pridham skoraði tvö í gær
Delaney Baie Pridham skoraði tvö í gær
Mynd: ÍBV
Ég bjóst við að við myndum svara þessu aðeins betur
Ég bjóst við að við myndum svara þessu aðeins betur
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
ÍBV vann í gær 4-2 sigur á Breiðabliki í Pepsi Max-deild kvenna. Þetta eru úrslit sem koma mörgum á óvart. Skömmu fyrir hálfleik var staðan 2-1 fyrir ÍBV. ÍBV komst í 3-1 en svo fékk Olga Sevcova að líta beint rautt spjald.

Strax í kjölfarið skoraði ÍBV sitt fjórða mark og leiddi 4-1 í leikhléi. Breiðablik minnkaði muninn undir lok leiks en lengra komst liðið ekki.

„Mér fannst þetta spilast þannig að þær komu grimmar til leiks, eitthvað sem við áttum alveg von á, að þær myndur berjast. Ég bjóst við að við myndum svara þessu aðeins betur, við náðum ekki alveg að svara þeirri baráttu nógu vel fannst mér," sagði Vilhjálmur Kari Haraldsson, við Fótbolta.net í dag.

Lestu um leikinn: ÍBV 4 - 2 Breiðablik

„Mér fannst líka ákveðnir hlutir detta með þeim, þær fengu ekki mörg upphlaup en fengu mörk úr þeim. Á móti fengum við færi en nýttum þau ekki. Þetta datt svolítið þeirra megin."

„Ekkert í raun sem kom mér á óvart, ég sá leikinn þeirra gegn Þór/KA og þær áttu að vinna þann leik. Þær voru óheppnar að skora bara eitt mark í þeim leik. Við nýttum ekki færin og þær nýttu færin."


Burtséð frá færanýtingu, varstu ósáttur við hvernig þitt lið spilaði í leiknum?

„Kannski ekkert sérstaklega ósáttur, við vorum alveg að opna þær og fá færi, það sem þetta snýst um. Ég hefði viljað að við hefðum mætt þeim aðeins betur í baráttunni. Við náum svo inn markinu mjög seint inn þegar við erum einum fleiri. Hefðum við náð því fyrr þá held ég að þessi seinni hálfleikur hefði þróast öðruvísi."

„Þeirra fjórða mark kom á rosalega slæmum tímapunkti fyrir okkur. Það var kjaftshögg. Það ásamt því að þurfa skipta þremur leikmönnum út af vegna meiðsla. Það riðlar ákveðnum hlutum í okkar leik. Þetta var bara góður leikur hjá ÍBV og einn af þeim leikjum sem þetta dettur öðrum megin."

„Ég tek ekkert af ÍBV, þær eru með góða leikmenn ef þær taka mörg stig í sumar. Maður sá það í þessum leik að sú sem spilar frammi, Delaney, hún er mjög öflug og hinar líka, mjög gott og þétt lið."

„Við erum ekki í nenu sjokki þó maður sjái fréttaflutning um stórsigur ÍBV. Þetta var 4-2, ekki 7-2. Allavega þegar Breiðabik vinnur 4-2 þá er ekki talað um stórsigur. Að mörgu leyti finnst mér að það sé verið að gera lítið úr ÍBV að segja þessar lokatölur stórsigur."

„Auðvitað hefði maður viljað að þetta hefði farið öðruvísi. Með stöðuna 2-1 inn í hálfleik þá hefði þetta verið allt, allt annar leikur. Mér fannst það hafa svolítil áhrif á mitt lið að fá þessi tvö mörk á sig undir lok leiksins. Það stuðaði liðið og við vorum lengi að jafna okkur. En það er bara næsti leikur, þetta er rétt að byrja. Við byrjuðum hátt, förum aðeins niður á jörðina og svo vonandi stígum við hratt upp aftur."


Villi talaði um meiðsli þriggja leikmanna. Heiðdís Lillýardóttir fór af velli eftir átján mínútur, Hafrún Rakel Halldórsdóttir fór af velli í hálfleik og Karitas Tómasdóttir eftir klukkutíma leik.

Er þetta eitthvað alvarlegt?

„Við vitum það ekki fyrr en þær fara í sjúkraþjálfun í dag. Vonandi er þetta eitthvað lítið en maður hefur samt smá áhyggjur. Það er ekki gott að missa marga menn út, það eru þrír leikir á níu dögum," sagði Villi.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner