Portúgalski vængmaðurinn Pedro Neto var hæst ánægður með að hjálpa Chelsea að komast áfram í undanúrslit enska deildabikarsins í gær.
Varamennirnir skiptu sköpum fyrir Chelsea en Alejandro Garnacho skoraði tvö og Neto eitt í 3-1 sigrinum á Cardiff.
Neto segir að liðið hafi viljann til þess að vinna alla leiki og titla, og hrósaði hann Garnacho sérstaklega.
„Þetta var ótrúlega mikilvægt. Stjórinn sagði að á síðustu átján mánuðum er þetta í þriðja sinn sem við komumst í undanúrslit, þannig við erum ánægðir með það. Við náðum í sigurinn og hlökkum til að spila næsta leik.“
„Stundum vorum með með stjórn á leiknum en svo geta smáatriðin skipt öllu máli. Við töpuðum einbeitingunni aðeins því við fengum mörg horn á einum tímapunkti leiksins og í fyrsta sinn sem þeir sækja eftir horn þá skora þeir. Þannig það var smá einbeitingaleysi, en við fórum áfram þannig við erum í skýjunum með það.“
„Það var einbeitingin. Það var viljinn að vinna leikinn og við vildum ekkert meira en að vinna. Við fengum síðan leikmenn inn á sem skiptu sköpum eins og Garna (Garnacho) sem hjálpaði okkur með tveimur mörkum.“
„Við erum Chelsea og viljum vinna titla. Hugarfarið okkar er á þeim stað að við viljum vinna alla leiki,“ sagði Neto.
Athugasemdir



