Damir Muminovic leikur á morgun lokaleik sinn með Breiðabliki en hann er þegar búinn að semja við Grindavík um að spila með liðinu á komandi tímabili. Damir er næstleikjahæsti leikmaður í sögu Breiðabliks og hefur tvisvar sinnum orðið Íslandsmeistari með liðinu.
Breiðablik mætir Strasbourg á útivelli í Sambandsdeildinni annað kvöld og ræddi Damir við Fótbolta.net fyrir leikinn.
Breiðablik mætir Strasbourg á útivelli í Sambandsdeildinni annað kvöld og ræddi Damir við Fótbolta.net fyrir leikinn.
„Þetta leggst virkilega vel í mig, við æfðum á vellinum áðan, geggjaður völlur sem skítlúkkar og grasið glænýtt, tveggja vikna gamalt."
„Ég veit að það eru nokkrir af mínum mönnum í Chelsea í Strasbourg, Ben Chilwell t.d., og á pappír er þetta helvíti gott lið. Ég hef ekki fylgst mikið með þeim, hef bara séð nokkur vídeó af þeim á Youtube og þeir líta helvíti vel út."
„Við þurfum bara að vera við sjálfir, spila okkar leik. Þeir verða sennilega aðeins meira með boltann en við, en við förum í alla leiki til að reyna vinna. Vonandi gefum við þeim bara góðan leik. Eðlilega munum við á einhverjum tímapunkti liggja aðeins til baka, það eru geggjaðir leikmenn í þessu öfluga liði," segir Damir sem er stuðningsmaður Chelsea. Hann býst við allt öðruvísi leik en gegn Shamrock Rovers á Laugardalsvelli síðasta fimmtudag.
Hvernig er að fara inn í lokaleikinn með Breiðabliki?
„Það er smá erfitt, ég skal alveg viðurkenna það. Ég bjóst við því að klára ferilinn hér, en því miður vildi klúbburinn leita eitthvað annað og það er bara gott og blessað."
Er einhver gulrót að enda þetta með leik í Sambandsdeildinni þar sem með sigri er möguleiki á umspilssæti?
„Nei, eiginlega ekki af því ég er ekkert hættur í fótbolta eftir þennan leik. Það hefði verið geggjað fyrir mig að hætta með Blikum þegar ég hefði ákveðið að hætta í fótbolta."
Damir lék ekki með Blikum fyrri part sumars þar sem hann spilaði í Brúnei fyrri part árs. Hann kom til baka í glugganum.
„Árangurslega hefur þetta verið ágætt, við náðum sæti í Sambandsdeildinni en einhvern veginn virkaði þetta ekki heima í deildinni. Ég ætla ekki að segja vonbrigðatímabil, en við vildum gera betur," segir Damir.
Viðtalið má sjá í spilaranum efst.
Athugasemdir






















