Fimm stór félög að eltast við Semenyo - Man Utd í viðræðum um nítján ára miðjumann - Arsenal hefur áhuga á leikmanni AC Milan
banner
   mið 17. desember 2025 14:44
Elvar Geir Magnússon
Nóel Atli framlengir í Álaborg - Finnur fyrir traustinu
Nóel Atli Arnórsson í leik með U21 landsliði Íslands.
Nóel Atli Arnórsson í leik með U21 landsliði Íslands.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Íslenski U21 landsliðsmaðurinn Nóel Atli Arnórsson hefur framlengt samning sinn við danska B-deildarfélagið AaB í Álaborg til sumarsins 2029.

Nóel, sem er 19 ára örvfættur varnarmaður, lék sinn fyrsta aðalliðsleik fyrir AaB í ágúst 2023, 16 ára 319 daga gamall. Aðeins þrettán leikmenn hafa spilað sinn fyrsta leik fyrir félagið áður en þeir verða 17 ára.

Íþróttastjórinn John Möller segir Nóel hafa vaxið vel upp úr akademíu félagsins, aukinn spiltími og traust hafi þar spilað inn í.

„Hann hefur sýnt stöðugleika í frammistöðu sinni og í þeim verkefnum sem hann fær; hvort sem það er sem miðvörður eða vinstri bakvörður," segir Möller.

Nóel segist finna fyrir traustinu sem félagið hefur sýnt honum og það virki sem hvatning.

„Eftir að hafa verið næstum níu ár hjá AaB þá líður mér eins og ég sé heima hjá mér. Ég er tilbúinn fyrir næsta skref og meiri ábyrgð hjá félaginu. Liðið og félagið eru á leið í rétta átt," segir Nóel sem hefur spilað 44 leiki fyrir félagið og skorað eitt mark.

Álaborg er í sjötta sæti af tólf liðum dönsku B-deildarinnar en Nóel á fast sæti í byrjunarliðinu. Hann á fimm leiki að baki með íslenska U21 landsliðinu og hefur alls leikið nítján leiki fyrir yngri landsliðin.


Athugasemdir
banner
banner