Bayern hefur gert tilboð í Díaz - Liverpool vill Ekitike
banner
   fös 11. júlí 2025 20:35
Ívan Guðjón Baldursson
Lengjudeildin: Mögnuð endurkoma hjá Grindvíkingum
Lengjudeildin
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fjölnir 2 - 3 Grindavík
1-0 Egill Otti Vilhjálmsson ('16)
2-0 Sölvi Sigmarsson ('32)
2-1 Ármann Ingi Finnbogason ('69)
2-2 Adam Árni Róbertsson ('75)
2-3 Sindri Þór Guðmundsson ('77)
2-3 Kristófer Dagur Arnarsson ('82, misnotað víti)

Lestu um leikinn: Fjölnir 2 -  3 Grindavík

Fjölnir og Grindavík áttust við í fyrsta leik kvöldsins í Lengjudeild karla og byrjuðu heimamenn betur. Þeir tóku forystuna á sextándu mínútu eftir mikinn atgang í vítateig Grindavíkur í kjölfar hornspyrnu, Egill Otti Vilhjálmsson kom boltanum í netið.

Grindvíkingar leituðu sér að jöfnunarmarki og varð leikurinn afar opinn þar sem bæði lið fengu frábær færi til að skora, en það voru Fjölnismenn sem tvöfölduðu forystuna. Sölvi Sigmarsson skoraði eftir flotta fyrirgjöf frá Einari Erni Harðarsyni.

Fjölnismenn komust nálægt því að gera þriðja markið fyrir leikhlé en tókst ekki, svo staðan var 2-0 í hálfleik.

Grindvíkingar voru sterkari aðilinn í síðari hálfleik og áttu nokkrar góðar marktilraunir áður en Ármann Ingi Finnbogason minnkaði muninn með laglegu marki beint úr aukaspyrnu. Hann spyrnti lágt og fast og stóð Sigurjón Daði Harðarson kyrr á marklínunni.

Trú gestanna jókst með þessu marki og var vörn Fjölnis út um allar þúfur. Adam Árni Róbertsson jafnaði metin með skalla eftir hornspyrnu á 75. mínútu og svo kom Sindri Þór Guðmundsson yfir skömmu síðar, og reyndist það sigurmarkið.

Það var gríðarlega mikið líf í þessum leik og fengu Fjölnismenn kjörið tækifæri til að jafna metin á ný þegar vítaspyrna var dæmd á lokakaflanum. Kristófer Dagur Arnarsson klúðraði þó af punktinum þar sem Matias Niemela skutlaði sér en skildi fæturna eftir til að verja.

Heimamenn reyndu hvað þeir gátu til að skora jöfnunarmark en tókst ekki. Sigurjón markvörður átti síðustu marktilraunina en skalli hans fór yfir markið eftir hornspyrnu seint í uppbótartíma.

Niðurstaðan 2-3 sigur fyrir Grindavík eftir frábæra endurkomu í síðari hálfleik.

Grindavík er í neðri hluta deildarinnar með 14 stig eftir 12 umferðir, fimm stigum fyrir ofan Fjölni sem er áfram í fallbaráttu.
Athugasemdir
banner
banner