„Já þetta var ógeðslega leiðinlegt. Við vorum að setja mikla pressu á þá í lokin, mér fannst við vera lélegir í fyrri hálfleik. Við áttum skilið að setja eitt mark. Gífurlega svekkjandi að ná ekki að fara í aðra Evrópuferð og fara lengra. Mjög svekkjandi.“ sagði Adam Ægir Pálsson, leikmaður Vals, eftir 2-1 tap gegn Zalgiris í kvöld sem þýddi það að Valur er úr leik í Evrópu þetta árið.
Lestu um leikinn: Valur 1 - 2 Zalgiris
Adam segir það hafi komið sér á óvart að hafa ekki verið valinn í byrjunarliðið í dag en hann treysti Túfa fyrir þessum ákvörðunum.
„Já það kom mér á óvart (að hafa ekki byrjað). En eins og ég segi ég ber bara virðingu fyrir ákvörðun þjálfarans og ef hann telur að hafa mig á bekknum sé best að þá er það bara þannig. Ég treysti honum og hann er búinn að hafa rétt fyrir sér í sumar þannig ég get ekkert sagt.“
Adam og Aron Jóh komu inn í seinni hálfleikinn með alvöru kraft og blésu líf í leik Vals.
„Aron er með gríðarleg gæði og ég tel mig líka vera ágætlega fínan. Við komum inn með kraft. Við hefðum viljað setja jöfnunarmarkið og fara með þetta í framlengingu, ég er nokkuð viss um að við hefðum unnið í framlengingu. En svona er þetta, það er bara Evrópa á næsta ári.“
Sigurmarkið sem Zalgiris skoraði hlýtur að hafa verið gífurlega svekkjandi mark að fá á sig?
„Já ekkert smá. Við erum búnir að vera góðir varnarlega í sumar. Þetta fer af varnarmanni og það er erfitt að verjast þessu. En svona er þetta, ég get ekkert slæmt um varnarlínuna eða Fred (Frederik Schram), þetta er bara óheppni og áfram gakk.“
Hvað vantaði hjá Val svo að boltinn færi yfir línuna í seinni hálfleiknum?
„Þeir hvíldu um helgina og hvíldu 8 leikmenn í leiknum á undan því. Við höfum ekki verið með þann lúxus að hvíla leikmenn. Við erum að spila hérna á þriggja til fjögurra daga fresti þannig að ég held að það hafi alveg mikið til sín að segja. Við vorum þungir í byrjun og stundum er það þannig en ég held að það sé ekki afsökun. Það er skemmtilegra að spila heldur en að æfa. Ég er ekki með útskýringu á því afhverju við erum svona lélegir í fyrri hálfleik. Það er gríðarlegt álag á okkur það verður bara að segjast eins og það er, það er líklega það bara.“
Viðtalið við Adam Ægi má finna í heild sinni í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir