Arsenal og Bayern berjast um Nico - Isak ætlar að ræða við Newcastle - Sane aftur til Englands?
   þri 11. október 2022 09:30
Brynjar Ingi Erluson
Klopp að nálgast endastöð? - „Á einhverjum tímapunkti verðum við að taka umræðuna"
Dietmar Hamann, fyrrum leikmaður Liverpool á Englandi, segir það styttist í endalok landa hans, Jürgen Klopp, hjá félaginu, en liðið hefur byrjað þessa leiktíð afar illa miðað við síðustu tímabil.

Liverpool er í 10. sæti deildarinnar með 10 stig og fjórtán stigum á eftir toppliði Arsenal þegar liðin hafa spilað níu leiki.

Liðið er ólíkt sér og hefur gert mörg mistök í varnarleiknum. Egypski sóknarmaðurinn Mohamed Salah er að eiga rólegt tímabil og eru margir á því máli að félagið hafi ekki styrkt leikmannahópinn nægilega mikið í sumar fyrir átökin á tímabilinu.

„Á einhverjum tímapunkti þá held ég að við verðum að taka umræðuna um stjórann og ég held að við séum ekki langt frá þeim tímapunkti," sagði Hamann.

„Klopp finnst hann vera rétti maðurinn til að gera þetta en ég sé litlu hlutina eins og Jordan Henderson þegar hann sá númerið sitt koma upp á hliðarlínunni og hvernig hann tók fyrirliðabandið af sér og hristi hausinn."

„Þetta er eitthvað sem við höfum ekki séð hjá Liverpool í fimm ár. Dýnamíkin hjá Liverpool er ekkert öðruvísi en annars staðar og ef úrslitin skila sér ekki þá verður heitt undir stjóranum."

„Sem stórt félag ertu alltaf að fara í gegnum breytingar en liðið hefur verið í hæsta gæðaflokki í þrjú eða fjögur ár. Það sem liðið hefur afrekað og það sem það gerði á síðasta ári var eitt besta tímabil sem við höfum séð."

„Ég held að þetta verði aldrei leikið eftir, það að vera sjö dögum frá því að vinna alla titla. Þessi leiktíð var alltaf að fara taka á andlegu hliðina."

„Ef þú horfir á Arsenal í síðari hálfleiknum þá var liðið með allt sem Liverpool var með fyrir fjórum eða fimm árum. Liðið var frábært þegar það keyrði fram völlinn. Manni leið að það var alltaf eitthvað að fara að gerast þegar það keyrði í sókn."

„Þetta Liverpool-lið lítur út fyrir að vera þreytt. Þeir eru eins og vegfarendur og virka flatir. Ég veit ekki hvaðan neistinn ætti að koma því liðið hefur unnið leiki á tímabilinu."

„Liðið vann Rangers fyrir nokkrum dögum en Liverpool er auðvitað miklu sterkara lið en Rangers. Ég treysti því að þeir vita hvaðan neistinn á að koma, en gæti þetta verið endalokin á þessum gullárum?"

„Ég ætla ekki að afskrifa Liverpool en ímyndunaraflið mitt leyfir mér ekki að sjá hvaðan neistinn ætti að koma næstu vikurnar,"
sagði Hamann í lokin.
Athugasemdir
banner
banner