Gomes, Lookman og Kolo Muani orðaðir við Man Utd - Trossard fær launahækkun - Brownhill í ítalska boltann?
   mið 12. apríl 2023 19:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
FH sótti um undanþágu - Leiknum flýtt út af handboltaleik
Mynd tekin af Miðvellinum í dag.
Mynd tekin af Miðvellinum í dag.
Mynd: Fótbolti.net
Alls ekki hægt að tala um að grasið sé grænt.
Alls ekki hægt að tala um að grasið sé grænt.
Mynd: Fótbolti.net
Leikur FH og Stjörnunnar hefur verið færður fram um klukkutíma á laugardag. Upphaflega átti leikurinn að hefjast klukkan 17:00 en er nú settur á 16:00. Leikstaður er enn skráður Kaplakrikavöllur en FH hefur sótt um undanþágu til KSÍ um að leikið verði á Miðvellinum - frjálsíþróttavellinum í Kaplakrika - oft kallað Miðgrasið.

Ástæðan fyrir breyttum leiktíma er sú að úrslitakeppnin í handbolta hefst á laugardag og FH á heimaleik gegn Selfossi um kvöldið. Ef leiktíminn á fótboltaleiknum hefði haldist hefði handboltaleikurinn ekki getað hafist fyrr en klukkan 20:00 en mun hefjast 19:30.

„Breytingin á leiktíma hefur ekkert með leikstaðinn að gera. Við erum búnir að sækja um undanþágu til að spila á Miðvellinum og það verður held ég tekin ákvörðun um það hjá KSÍ á morgun. Við erum á fullu að koma sætum í stúkustæðin og svoleiðis," sagði Davíð Þór Viðarsson, yfirmaður fótboltamála hjá FH, við Fótbolta.net í dag.

„Við munum vera með 300 sæti, og eins og á mörgum völlum á Íslandi eru ekki allir sitjandi. Við miðum við að geta verið með 1000-1200 áhorfendur. Þetta verður auðvitað öðruvísi upplifun en venjulega þegar komið er í Kaplakrika en ég held að hún muni ekkert brennimerkja neinn fyrir lífstíð."

Stöð 2 Sport mun sýna frá leiknum. Verður ekkert mál fyrir rétthafann að koma öllum búnaði á rétta staði?

„Þeir komu og kíktu á okkur og það lítur vel út með það. Það eina sem þarf er lyfta fyrir aðalmyndavélina þeirra, annars er allt í standi varðandi það. Allt verður gert með eins miklum sóma og hægt er þegar spilað er á einhverjum öðrum velli heldur en aðalvellinum."

Hvað gerist ef KSÍ veitir FH ekki undanþáguna?

„Þá myndum við þurfa að tala við KSÍ og sjá til hvernig væri best að leysa það. Ástæðan fyrir því að við viljum spila á Miðvellinum er að við viljum spila á heimavelli. Við viljum ekki þurfa að færa leikinn eitthvert annað. Ef KSÍ veitir okkur ekki undanþágu þá þurfum við að reyna finna einhverja lausn á því. Ég er ekki með hana í kollinum akkúrat núna," sagði Davíð.

Sjá einnig:
Óvíst hvar FH mætir Stjörnunni sem vill ekki víxla á heimaleikjum
Útskýrir af hverju Stjarnan sagði nei við FH - „Mjög ófagmannlegt að þetta sé ekki klárt"
Athugasemdir
banner
banner
banner