Chelsea verðmetur Jackson á 100 milljónir punda - Rashford efstur á óskalista Barcelona - Sancho til Juventus?
   lau 12. júlí 2025 08:00
Ívan Guðjón Baldursson
Barcelona ætlar að leggja allt púður í Rashford
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Marcus Rashford er orðinn efstur á óskalista Barcelona eftir að Spánarmeisturunum tókst ekki að næla í Luis Díaz og Nico Williams.

Börsungar eru í leit að nýjum vinstri kantmanni til að veita Raphinha samkeppni, en hann og Lamine Yamal eru einu hreinræktuðu kantmennirnir í leikmannahópi Hansi Flick.

Pablo Torre, Fermín López, Ferran Torres, Dani Olmo og Gavi eru einnig liðtækir kantmenn þó þeir sinni flestir öðrum hlutverkum í leikmannahópinum. Torre og Torres eiga þá aðeins eitt og tvö ár eftir af sínum samningum við félagið.

Rashford er því orðinn efstur á óskalista félagsins þar sem hann er sagður vera falur fyrir 40 milljónir punda.

Sky í Þýskalandi segir að Barca ætli að skipta um gír í leit sinni að nýjum vinstri kantmanni og leggja allt púður í Marcus Rashford.

Rashford er 27 ára og stóð sig vel á láni hjá Aston Villa á seinni hluta síðustu leiktíðar, þar sem hann kom að 10 mörkum í 17 leikjum. Vandamálið hafa verið launakröfurnar, þar sem hann er á risasamningi hjá Rauðu djöflunum og hefur hingað til ekki verið tilbúinn til að taka mikla launalækkun á sig.

Rashford fær lengra frí frá undirbúningstímabilinu hjá Man Utd heldur en liðsfélagar sínir en hefur þrátt fyrir það kosið að mæta aftur á æfingasvæðið. Þar æfir hann einn síns liðs og fær afnot af aðstöðunni.

Rashford á enga framtíð hjá Man Utd undir stjórn Rúben Amorim og er búinn að missa tíuna sína til Brasilíumannsins Matheus Cunha.
Athugasemdir
banner