Sænski framherjinn Viktor Gyökeres segist sitja við sama borð og bestu framherjar heims. Kokhraustur Gyökeres ræddi við L'Equipe um framtíðina á dögunum.
Gyökeres er 27 ára gamall og einn allra heitasti framherji Evrópu um þessar mundir.
Á tveimur árum sínum hjá Sporting hefur hann skorað 97 mörk í 102 leikjum, en það eru allar líkur á því að hann skipti um félag í sumar. Arsenal er sagður lang líklegasti áfangastður Svíans, sem er spenntur fyrir hugmyndinni að snúa aftur til Englands.
„Þetta er ein stærsta deild Evrópu. Ég eyddi fjölmörgum árum þar án þess að spila leik þannig auðvitað er það eitthvað sem ég vil gera. Það yrði frábær hefnd.“
„Þetta er fótbolti, þannig maður veit aldrei. Ég er ekki að hugsa um það, en við sjáum bara hvað gerist
„Ef einhverju er ætlað að gerast þá gerist það. Mikilvægasta fyrir mig er að spila fyrir félag sem hefur virkilegan áhuga á því að fá mig,“ sagði Gyökeres.
Markavélin, sem hefur ekki enn sannað sig í fimm bestu deildum Evrópu, segist vera í hóp með Erling Braut Haaland, Harry Kane og Robert Lewandowski og að fólk hafi ekki enn séð það besta frá honum.
„Já, ég er klárlega einn af þeim. Það er erfitt að segja nákvæmlega hvar ég er á listanum, en núna sit ég við sama borð og þeir. Ég er sannfærður um að það sem ég gerði með Sporting geti ég gert hvar sem er. Þið hafið ekki enn séð það besta frá Gyökeres,“ sagði hann í lokin.
Athugasemdir