„Við þurfum alltaf að læra. Þetta eru lítil mistök sem við gerum. Öll mörkin sem við fáum á okkur eru mjög svipuð, við missum boltann, skyndisókn og mark. Það gerist kannski ekki bara í okkar leik það er ákveðið lið í Englandi sem er líka að ströggla við þetta," sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings og vitnar í Manchester City.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 1 - 2 Djurgården
Víkingar þurftu að sætta sig við 2-1 tap gegn Djurgården fyrr í dag í Sambandsdeildinni en Víkingar voru manni fleiri síðustu 20 mínúturnar.
„Mér fannst fyrri hálfleikur nokkuð solid. Við gerðum illa í nokkrum atriðum, eins og í föstum leikatriðum. Í seinni hálfleik vorum við allt of værukærir."
„Viðvörunarbjöllurnar voru búnar að hringja löngu áður en þeir skoruðu fyrsta markið. Ég held að menn hafi gleymt að taka sér rétta stöðu, þegar við erum með boltann. Þeir voru með kjarnorku í löppunum til að nýta sér okkar veikleika."
„Ég var að pæla í því hvort að það væri eitthvað betra að vera manni fleiri eða ekki. Þeir lögðust lágt niður, eftiráhyggja hefðum við mögulega átt að dæla boltum í teig og vinna seinni bolta."
Hvenær endar lærdómurinn?
Arnar var spurður hvernig hann mæti stöðuna og möguleikana fyrir leikinn á móti LASK í lokaumferðinni.
„Það er rosalega mikið talað um að íslenskir leikmenn þurfi að læra af þessum leikjum, en á endanum verður maður þreyttur á að tala um að læra. Hvenær endar lærdómurinn? Þetta eru svo lítil mistök sem við gerum. Mörkin sem við fáum á okkur eru mjög svipuð. Möguleikarnir fara eftir því hvernig okkur gengur að greina okkar leik og getur líka farið eftir því hvernig LASK gengur í kvöld. Ef þeir tapa gegn Fiorentina þá eru þeir úr leik og þá kannski hvíla þeir lykilmenn gegn okkur."
„Mér líður ekkert alltof vel með það (möguleikann á að fara í umspil með sjö stig). Það eru búin að vera fá jafntefli, en mögulega duga sjö stig," sagði Arnar.
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir