Arna Eiríksdóttir (Þór/KA)
Það er Steypustöðin sem færir þér leikmann umferðarinnar í Bestu deildinni. Keflavík átti leikmann umferðarinnar í fyrstu tveimur umferðunum en núna er breyting á því. Sterkasti leikmaður umferðarinnar kemur úr Þór/KA og heitir Arna Eiríksdóttir.
Hún gerði sigurmarkið í leiknum sem varð til þess að Þór/KA fór heim með stigin þrjú.
„Arna stóð vaktina mjög vel í vörninni í dag og stoppaði sóknarmenn Aftureldingar oft á tíðum mjög vel. Hún var svo hetja Akureyringa þegar hún skorar mark úr hornspyrnu í lok leiks og tryggir Þór/KA sigurinn," skrifaði Sigríður Dröfn Auðunsdóttir í skýrslu sinni frá leiknum.
Fyrirmynd fyrir aðra unga leikmenn
Arna, sem er tvítug, er uppalin í Víkingi en hún spilaði þar upp alla yngri flokka.
Hún tók athyglisvert skref í vetur þegar hún ákvað að fara frá Val á láni í leit að meiri spiltíma. Hún fór til Akureyrar og samdi við Þór/KA um að spila með þeim á tímabilinu. Þetta er skref sem aðrir ungir leikmenn á Íslandi mega taka sér til fyrirmyndar; að fara aðeins út fyrir þægindarrammann, öðlast góða reynslu og fá fullt af mínútum í staðinn fyrir að sitja mikið á bekknum.
Arna fer vel af stað með Þór/KA. Í samtali við Morgunblaðið segir að hún að markmiðið sé að enda í efri hlutanum.
„Sem varnarmaður er það svo sem ekkert endilega markmið mitt fyrir leik að skora en það er alltaf gott þegar það kemur og alltaf gott að geta hjálpað liðinu."
„Við náttúrlega einbeitum okkur bara að því að reyna að vinna hvern einasta leik. Við tökum bara einn leik í einu og reynum að fá þrjú stig í hverjum einasta þeirra. Auðvitað viljum við vera í efri helmingnum," sagði Arna.
Sjá einnig:
Sterkust í 1. umferð - Ana Paula Santos Silva (Keflavík)
Sterkust í 2. umferð - Samantha Leshnak Murphy (Keflavík)
Athugasemdir