Kovac orðaður við stjórastól Liverpool - Newcastle vill Gibbs-White - Dewsbury-Hall orðaður við Tottenham
   mán 13. september 2021 11:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Alex settur á bekkinn - „Veit ekki af hverju Víkingur er eitthvað að tefja"
Lengjudeildin
Alex Freyr hitar upp á laugardaginn.
Alex Freyr hitar upp á laugardaginn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Nonni Sveins léttur í leiknum á laugardag.
Nonni Sveins léttur í leiknum á laugardag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Alex Freyr Elísson mun ganga í raðir Víkings frá Fram þegar samningur hans rennur út eftir tímabilið. Alex er 23 ára hægri bakvörður sem hefur leikið allan sinn meistaraflokksferil með Fram.

Lestu um leikinn: Kórdrengir 2 -  2 Fram

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, ræddi þessi skipti fyrir helgi. „Við erum búnir að vera í viðræðum við hann undanfarna mánuði eftir að það mátti byrja ræða við hann. Samningurinn hans rennur út í október."

„Við erum að vinna hörðum höndum í því að fá hann yfir en við ætlum ekki að tilkynna neitt fyrr en eftir að tímabilinu lýkur,"
sagði Arnar við Fótbolta.net á föstudag.

Jón Sveinsson, þjálfari Fram var spurður út í Alex í viðtali eftir leik Fram og Kórdrengja á laugardag. Alex Freyr var allan tímann á bekknum í leiknum. Er ástæðan fyrir því að hann er ónotaður varamaður sú að hann er búinn að semja við Víking?

„Já, það er í sjálfu sér ástæðan. Alex er að fara frá okkur og ég veit ekki af hverju Víkingur er eitthvað að tefja það að gefa það út. Staðan er þannig og því miður, sárt að sjá á eftir honum. Hann er svo sem ekki fyrsti maðurinn til að fara á milli þessara tveggja félaga. Svo kemur það bara í ljós hversu góð eða slæm ákvörðun það var."

Þú vilt ekki nota hann fyrst að hann er búinn að semja annars staðar?

„Nei, ég hefði notað hann ef mér hefði fundist það skipta máli. Ég fékk tækifæri í staðinn til að gefa ungum strák, sem hefur verið í unglingalandsliðsverkefnum, séns í bakverðinum. Það var mjög gaman að geta gert það og Alex skilur alveg stöðuna. Hann er að æfa með okkur og er hluti af hópnum og klárar tímabilið."

Og það eru allir glaðir? „Ég er ekkert glaður að hann skuli vera að fara. Ég er ekkert ósáttur og tek þessu ekki persónulega. Þetta er hans ákvörðun, að þetta sé best fyrir sig á þessum tímapunkti og við lifum alveg við það. Við höfum þurft að sjá á eftir uppöldnum leikmönnum á hverju ári síðan ég kom hérna. Sumum gengur vel og öðrum síður. Svona er þetta, menn verða að prufa sig áfram, taka ákvarðanir og lifa með því. Það getur vel verið að þetta verði frábær ákvörðun, tíminn mun leiða það í ljós."

Þið munuð skemmta ykkur saman þegar bikarinn fer á loft í næstu viku? „Já, klárlega. Hann er búinn vera mikilvægur hluti af liðinu í þessi þrjú ár. Það hefur verið stígandi í þessu og hann er búinn að eiga frábært tímabil. Hann mun ásamt öllum hinum í fagnaðarlátunum," sagði Nonni að lokum.

Viðtalið í heild má sjá hér að neðan.
Jón Sveins: Ekki oft sem maður fagnar jafnteflum
Athugasemdir
banner
banner
banner