Gareth Southgate, landsliðsþjálfari Englendinga, kom miðverðinum Harry Maguire til varnar eftir 1-3 sigur í vináttulandsleik á útivelli gegn Skotlandi í gærkvöldi.
Maguire kom inn í hálfleik og skoraði eina mark Skota í leiknum og var Southgate spurður út í frammistöðu varnarmannsins, sem hefur verið harðlega gagnrýndur á undanfarin misseri.
Gagnrýnin hefur verið svo mikil, að stuðningsmenn Skotlands sem mættu á völlinn fögnuðu dátt þegar Maguire var skipt inná í hálfleik. Þeir fögnuðu svo í hvert skipti sem Maguire átti sendingu.
„Ég hef aldrei áður upplifað annað eins, ég hef aldrei séð farið jafn illa með einn leikmann í fjölmiðlum. Þetta er leikmaður sem hefur átt lykilþátt í frábærum árangri enska landsliðsins undanfarin ár og er gríðarlega mikilvægur partur af hópnum okkar," sagði Southgate eftir sigurinn.
Maguire missti byrjunarliðssætið hjá Manchester United á síðustu leiktíð áður en hann missti fyrirliðabandið í sumar. Hann var næstum búinn að skipta um félag í sumar en ákvað að lokum að vera áfram eftir að keppinautar hans um miðvarðastöðurnar lentu í meiðslavandræðum.