Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
banner
   þri 14. júní 2022 09:00
Brynjar Ingi Erluson
Andri bjóst við að spila meira hjá Real Madrid - „Ég er opinn fyrir öllu"
Andri Lucas Guðjohnsen
Andri Lucas Guðjohnsen
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Árið hjá Andra Lucasi Guðjohnsen hefur verið vonbrigði að mestum hluta en þó má finna marga jákvæða punkta. Hann er meiðslafrír og mun skoða framtíð sína í sumar.

Andri Lucas er 20 ára gamall og uppalinn á Spáni en hann steig sín fyrstu skref með A-landsliði Íslands á síðasta ári.

Síðan þá hefur hann skorað 2 mörk í 9 landsleikjum. Það hefur þó ekki alveg gengið jafnvel með félagsliði hans, Real Madrid, en hann léikur með B-liði félagsins.

Andri sleit krossband fyrir tveimur árum og var frá heilt tímabil en mætti síðan ferskur fyrir síðasta tímabil. Hann fékk lítinn spiltíma og byrjaði síðasta leik í nóvember. Andri lék 24 leiki í heildina og gerði 4 mörk, en fékk þó aðeins 553 mínútur til að spreyta sig yfir allt tímabilið.

Það jákvæða er að hann fékk mikið af mínútum í þessum landsliðsglugga, komst heill frá því og þá var þetta fínasta auglýsing fyrir hann til að auka áhuga liða í Evrópuboltanum, en hann segist ætla að skoða framtíðina í sumar.

„Þetta er fyrsta tímabilið eftir krossbandsslit. Það mikilvægasta er að meiðast ekki aftur í hnénu eða lenda í meiðslum. Ég er ágætlega sáttur að vera búinn að koma mér í gang aftur, það er ekkert búið að gerast eftir þessi meiðsli, en það er leiðinlegt að spila svona lítið og bjóst við að spila aðeins meira á þessu ári. Það kemur í ljós hvað gerist."

„Ég er bara opinn fyrir öllu en eins og ég segi það kemur í ljós hvað gerist á næsta tímabili,"
sagði Andri við Fótbolta.net.

Andri er gjaldgengur í U21 árs landsliðið sem leikur mikilvæga umspilsleiki í september en væri hann til í að hjálpa liðinu í þeim glugga?

„Þetta er frábærlega gert hjá þeim og ótrúlega gott lið og góðir leikmenn. Ég ræð því ekki, en ætli það komi ekki ljós hvað verður gert," sagði Andri.
Andri Lucas: Enginn Guardiola bolti sem við erum komnir í
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner