Man Utd eflir leit sína að liðsstyrk - David ofarlega á blaði - Ítölsk félög vilja Greenwood - Liverpool vill Olise
banner
   fös 14. júní 2024 08:00
Ívan Guðjón Baldursson
Al-Ittihad að krækja í annan fyrirliða frá Real Madrid
Mynd: EPA
Mynd: Getty Images
Sádi-arabíska stórveldið Al-Ittihad átti mikið vonbrigðatímabil og ætlar að styrkja leikmannahópinn sinn í sumar. Einn af þeim fyrstu til að semja við félagið verður Nacho Fernández, fyrirliði Real Madrid sem verður samningslaus í lok mánaðar.

Nacho er 34 ára gamall og spilaði 45 leiki á nýliðnu tímabili, er Real Madrid vann bæði spænsku deildina og Meistaradeild Evrópu.

Nacho verður annar fyrirliðinn í röð til að yfirgefa Real Madrid fyrir Al-Ittihad, eftir að félagið keypti Karim Benzema í fyrra.

Auk Benzema eru N'Golo Kanté, Fabinho, Luiz Felipe og Jota allir samningsbundnir Al-Ittihad og hefur félagið einnig verið orðað við Éderson, markvörð Manchester City og brasilíska landsliðsins, að undanförnu.

Liðið spilar undir stjórn Marcelo Gallardo, fyrrum landsliðsmanns Argentínu og þjálfara River Plate, og stefnir á að berjast við Al-Hilal og Al-Nassr í titilbaráttunni á næstu leiktíð.

Nacho gat fengið eins árs framlengingu á samningnum hjá Real en kaus að reyna frekar fyrir sér í nýrri heimsálfu þar sem hann fær öruggan spiltíma.

Táningurinn öflugi Leny Yoro er efstur á óskalista hjá Real Madrid til að fylla í skarðið sem Nacho skilur eftir.
Athugasemdir
banner
banner
banner