,,Það er leiðinlegt að tapa fótboltaleikjum, það er orðið langt síðan en auðvitað kemur að þessu á einhverjum tímapunkti," sagði Rúnar Kristinsson þjálfari KR eftir 2-1 tap gegn Fram á Laugardalsvelli í kvöld en þetta var fyrsti tapleikur KR í sumar.
,,Maður er sár og svekktur með úrslitin. Þó fyrri hálfleikur hafi ekki verið sérstakur af okkar hálfu en síðustu 15 mínúturnar af fyrri hálfleik stjórnuðu Framarar ferðinni og sköpuðu sér hættuleg færi. Þeir voru verðskuldað í forystu í hálfleik," hélt Rúnar áfram.
,,Svo tökum við seinni hálfleikinn algjörlega yfir og náum að jafna leikinn sem við ætluðum okkur að gera en urðum fullákafir að skora sigurmarkið og fyrir vikið fáum við eitt í andlitið."
Bæði mörk Fram í kvöld komu í gegnum skyndisóknir, er það áhyggjuefni fyrir KR?
,,Við vitum að þegar við spilum hátt á vellinum og framarlega að við munum fá á okkur skyndisóknir. Við vissum að Framarar eru eldfljótir með þrjá fljóta framherja og einn stóran með þeim . Þeir gerðu gríðarlega vel í fyrra markinu, flott skyndiupphlaup hjá þeim eftir að við höfðum verið í skyndiupphlaupi á þá. Okkur mistókst að skora og þeir fóru upp hinum megin og skora 1-0."
,,Annað markið, þá kom langur bolti í gegn, svona Hit & hope fyrir Kristinn Inga sem er eldfljótur og stingur alla af og kláraði þetta vel."
Athugasemdir