Arsenal gefst upp á Nico Williams - Fabio Vieira aftur til Porto - Brighton nær samkomulagi við Fenerbahce - Greenwood skiptir um landslið
   sun 14. júlí 2024 20:54
Brynjar Ingi Erluson
Spánn Evrópumeistari í fjórða sinn
Mikel Oyarzabal skorar sigurmarkið undir lokin
Mikel Oyarzabal skorar sigurmarkið undir lokin
Mynd: Getty Images
Nico Williams skoraði fyrra mark Spánverja
Nico Williams skoraði fyrra mark Spánverja
Mynd: Getty Images
Palmer gaf Englendingum von en Oyarzabal drap þá von með góðu marki
Palmer gaf Englendingum von en Oyarzabal drap þá von með góðu marki
Mynd: Getty Images
Englendingar töpuðu öðrum úrslitaleiknum í röð
Englendingar töpuðu öðrum úrslitaleiknum í röð
Mynd: Getty Images
Spánn 2 - 1 England
1-0 Nico Williams ('47 )
1-1 Cole Palmer ('73 )
2-1 Mikel Oyarzabal ('86 )
Lestu um leikinn

Spænska landsliðið er Evrópumeistari í fjórða sinn í sögunni og er nú formlega sigursælasta þjóð í sögu mótsins eftir að hafa unnið England, 2-1, á Ólympíuleikvanginum í Berlín í kvöld.

Óhætt er að segja að sigurinn hafi verið verðskuldaður. Spænska liðið var það lang skemmtilegasta á mótinu á meðan Englendingar virtust spila undir getu stærstan hluta mótsins.

Leikskipulag Englendinga var skýrt fyrir þennan leik. Það lá aftur á meðan Spánverjar fengu að spila boltanum sín á milli. Varnarleikur Englendinga var frábær í fyrri hálfleiknum.

Liðið náði að loka vel á Spánverja og gaf þeim ekki opin færi til þess að skora.

Spænska liðið varð fyrir miklu áfalli í hálfleik en Rodri, þeirra besti maður, var tekinn af velli vegna meiðsla og inn kom Martin Zubimendi.

Sú breyting var ekki eins mikil blóðtaka og búist var við. Nico Williams skoraði á 47. mínútu eftir sofandihátt í vörn Englendinga.

Lamine Yamal fékk boltann hægra megin við teiginn, kom honum vinstra megin í teiginn á Williams sem skoraði með góðu skoti. Fjórða stoðsending Yamal á mótinu.

Dani Olmo var hársbreidd frá því að bæta við öðru stuttu síðar en setti boltann framhjá úr frábæru færi. Alvaro Morata og Williams fengu báðir færi til að tvöfalda forystuna en boltinn vildi ekki inn.

Southgate var djarfur að taka Harry Kane, fyrirliða Englendinga, af velli eftir klukkutíma leik og inn kom hetjan í undanúrslitunum, Ollie Watkins.

Jude Bellingham átti hörkuskot tveimur mínútum síðar sem hafnaði rétt framhjá markinu og þá komst Yamal nálægt því skora hinum megin á vellinum stuttu síðar en Jordan Pickford varði frábærlega.

Fabian Ruiz, sem hefur átt frábært mót, reyndi að gera sig líklegan á 69. mínútu en skot hans flaug yfir markið. Fjórum mínútum síðar refsuðu Englendingar.

Boltinn kom inn í teiginn á Bellingham, sem náði að leggja hann út á varamanninn Cole Palmer sem skoraði með frábæru skoti neðst í vinstra hornið. Fyrsta mark hans á mótinu. Frábært svar hjá Englendingum.

Yamal fékk algert dauðafæri til að skora sigurmarkið á 82. mínútu eftir spil Olmo og Williams. Boltann datt síðan inn hægra megin á Yamal en Pickford varði slakt skot hans. Táningurinn átti að gera betur þarna.

Fjórum mínútum fyrir leikslok skoraði Mikel Oyarzabal sigurmarkið. Oyarzabal og Marc Cucurella spiluðu sína á milli á vinstri vængnum. Oyarzabal hljóp inn í teiginn og fékk frábæra sendingu áður en hann kláraði framhjá Pickford.

Englendingar voru hársbreidd frá því að jafna aftur. Declan Rice átti skalla sem Simon varði eftir hornspyrnu. Marc Guehi fékk næsta færi sem Olmo bjargaði á línu áður en Rice skallaði aftur en yfir markið. Ótrúlegar senur.

Enska liðið náði ekki að skora á síðustu mínútunum í uppbótartíma og tapa því annan úrslitaleikinn í röð. Betra liðið vann í dag.

Spánn er Evrópumeistari í fjórða sinn í sögunni og hefur nú engin þjóð unnið mótið oftar. Frammistaða Spánverja stórkostleg á mótinu og ekki hægt að mótmæla því að niðurstaðan sé sanngjörn.
Athugasemdir
banner
banner