Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   sun 14. ágúst 2022 20:10
Ívan Guðjón Baldursson
Lengjudeildin: Þór og Grindavík tóku HK og Kórdrengi í kennslustund
Lengjudeildin
Mynd: Þór
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Það fóru tveir leikir fram í Lengjudeild karla í dag þar sem óvænt úrslit litu dagsins ljós á Akureyri.


Þór tók þar á móti toppliði HK og gaf þeim rækilega kennslustund. Hinn feykiöflugi Ion Machi skoraði fyrsta mark leiksins með flottu skoti skammt utan vítateigs eftir að varnarmenn HK höfðu gefið honum alltof langan tíma á boltanum.

Alexander Már Þorláksson tvöfaldaði forystuna skömmu síðar þegar hann slapp í gegn á furðulegan hátt. Varnarmenn HK bjuggust við rangstöðu og voru ekki með fulla einbeitingu á Alexanderi sem nýtti sér það og vippaði boltanum yfir Arnar Frey Ólafsson markvörð HK-inga.

Þórsarar léku á alls oddi og komust nálægt því að bæta þriðja markinu við fyrir leikhlé. Í seinni hálfleik dó leikurinn niður þar sem Þórsarar færðu sig aftar á völlinn og voru duglegir að loka öllum glufum. HK gekk hörmulega að skapa sér færi þrátt fyrir að vera mikið með boltann á vallarhelmingi Þórsara. Lokatölur urðu 2-0 eftir frábæra frammistöðu Þórsara.

HK er áfram á toppinum með 37 stig eftir 17 umferðir. Þór er aftur á móti búinn að forðast fallbaráttuna endanlega þar sem þetta var fjórði sigur liðsins í síðustu fimm leikjum.

Lestu um leikinn

Þór 2 - 0 HK 
1-0 Ion Perelló Machi ('19)
2-0 Alexander Már Þorláksson ('30

Í Grindavík tóku heimamenn á móti Kórdrengjum og var strax blásið til sóknar. Á fyrstu tíu mínútum leiksins fengum við að sjá sex hornspyrnur áður en fyrsta markið leit dagsins ljós.

Þar var Kristófer Páll Viðarsson á ferðinni eftir að hafa unnið boltann af varnarmönnum Kórdrengja hátt uppi á vellinum. Grindvíkingar fóru í hápressu sem Kórdrengir réðu ekki við og staðan orðin 1-0.

Leikurinn var bragðdaufur þar sem Grindvíkingar gerðu vel að halda gestunum fjarri því að komast í færi. Það var í raun lítið sem ekkert að frétta fram að næsta marki þegar Kairo Edwards-John skoraði á 69. mínútu. Boltinn barst til hans í vítateignum og ákvað Kairo að láta vaða úr góðri stöðu.

Kórdrengir juku sóknarþungann á lokamínútunum en tókst ekki að skora og enn einn tapleikurinn á útivelli staðreynd. Kórdrengjum hefur ekki enn tekist að vinna deildarleik á útivelli í sumar.

Grindavík siglir lygnan sjó um miðja deild með 23 stig og eru Kórdrengir á svipuðum slóðum með 18 stig, sjö stigum fyrir ofan fallsvæðið.

Lestu um leikinn

Grindavík 2 - 0 Kórdrengir
1-0 Kristófer Páll Viðarsson ('10)
2-0 Kairo Edwards-John ('69)


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner