mán 15. ágúst 2022 07:40
Ívan Guðjón Baldursson
Fabian Ruiz ekki í hóp hjá Napoli - Á leið til PSG
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images

Það lítur út fyrir að Paris Saint-Germain sé við það að ganga frá kaupum á spænska landsliðsmanninum Fabian Ruiz sem hefur verið lykilmaður á miðju Napoli í fjögur ár.


Napoli spilar við Verona í fyrstu umferð deildartímabilsins og eigast liðin við í dag klukkan 16:30 á íslenskum tíma. Ruiz er ekki í leikmannahópi Napoli vegna viðræðna við PSG. Búist var við að PSG myndi krækja í hann á frjálsri sölu á næsta ári en nú virðist franska stórveldið staðráðið í að fá hann strax til sín.

Hann á eitt ár eftir af samningi sínum og hefur tilkynnt félaginu að hann muni ekki skrifa undir nýjan. Hann er í leit að nýrri áskorun.

PSG er talið borga tæpar 20 milljónir evra fyrir Ruiz en félögin eru einnig í viðræðum um Keylor Navas, landsliðsmarkvörð Kosta Ríka og varamarkvörð PSG.

Navas hefur verið meðal betri markvarða heims undanfarin ár en Christophe Galtier, nýr þjálfari PSG, ætlar að nota Gianluigi Donnarumma á milli stanganna. Navas á 106 leiki að baki á þremur árum hjá PSG en þar áður spilaði hann 162 leiki á fimm árum í treyju Real Madrid.

Napoli er með ítölsku markverðina Alex Meret og Salvatore Sirigu innanborðs en það er líklegt að Navas muni vinna þá í baráttunni byrjunarliðssæti. Sirigu og Meret eru þó meðal betri markvarða Ítalíu og eiga báðir leiki fyrir A-landsliðið.


Athugasemdir
banner
banner
banner