
Fyrrum landsliðskonan Elín Metta Jensen hefur óvænt tekið skóna fram af hillunni og skrifaði undir hjá Þrótti. Samningurinn gildir út næsta tímabil.
Elín Metta, sem er 28 ára gömul, lagði skóna á hilluna eftir síðustu leiktíð. „Nú finn ég að það er kominn tími til að sinna öðrum hugðarefnum sem ég hef þurft að setja til hliðar á meðan ég hef sinnt fótboltanum," sagði Elín þegar hún tilkynnti að hún væri hætt í fótbolta í október á síðasta ári.
Hún hefur verið að sinna læknisnámi meðfram fótboltanum og hefur oft reynst erfitt að púsla saman fótboltanum með gríðarlega krefjandi námi.
Elín varð Íslands- og bikarmeistari með Val síðasta sumar og þá var hún í landsliðshópnum á EM í Englandi.
Elín Metta er einn besti sóknarmaður sem hefur leikið í efstu deild á Íslandi, en hún lék 261 leiki fyrir Val og skoraði 193 mörk. Hún hefur einnig 62 landsleiki og skoraði 16 mörk.
Hún æfði með Stjörnunni fyrr í sumar en það varð ekkert úr því. Núna hefur hún óvænt skrifað undir hjá Þrótti. „Þróttur og Elín undirrituðu samning sín á milli út tímabilið 2024. Hún mun leika strax með Þrótti það sem eftir lifir móti og í úrslitakeppni. Elín Metta er stödd fyrir vestan en kemur í dalinn fagra á morgun, hlökkum til að kynna hana betur. Velkomin," segir í tilkynningu Þróttar.
Athugasemdir