Simons orðaður við Man Utd - Calafiori færist nær Arsenal - West Ham hefur áhuga á Tomori
   sun 15. september 2019 12:30
Magnús Már Einarsson
Álitsgjafar spá í stórleik Breiðabliks og Vals
Það verður hart barist á Kópavogsvelli í kvöld.
Það verður hart barist á Kópavogsvelli í kvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Helena Ólafsdóttir.
Helena Ólafsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Svava Kristín Grétarsdóttir.
Svava Kristín Grétarsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Daníel Rúnarsson
Bjarni Helgason (til vinstri).
Bjarni Helgason (til vinstri).
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fyrri leikur liðanna í sumar endaði 2-2.
Fyrri leikur liðanna í sumar endaði 2-2.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Breiðablik og Valur mætast í kvöld í næstsíðustu umferð Pepsi Max-deildarinnar. Tala má um leikinn sem hálfgerðan úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn en bæði lið eru taplaus í deildinni í sumar.

Fótbolti.net fékk nokkra álitsgjafa til að spá í spilin.Helena Ólafsdóttir, Pepsi Max-mörkin
Jæja þá er loksins komið að þessu sem maður hefur beðið eftir lengi. Ég held að þetta verði æsispennandi frá upphafi til enda. Þessi lið eru auðvitað bæði hrikalega vel mönnuð í öllum stöðum og ég held að dagsform geti skipt máli. Fyrirfram finnst mér Valur sigurstranglegri. Þær hafa verið að vinna sína leiki meira sannfærandi. Þær eru hættulegar á mörgum stöðum og eru með þrjá markahæstu leikmenn deildarinnar í sínum röðum. En allt liðið er gott og það má ekki gleyma því. Reynslan er mikil og eftir vonbrygði síðasta árs, þá á þetta að verða árið þeirra. Ég hef aðeins meiri áhyggjur af Blikum þar sem þær spiluðu í meistaradeildinni á miðvikudaginn og það gæti setið í þeim. Einnig hafa leikmenn eins og Hildur Antons glímt við meiðsli en hún er gríðarlega mikilvæg fyrir Blika. Einnig hafa Blikar hikstað aðeins í markaskorun í sínum leikjum en þær eru samt með eina Berglindi sem getur alltaf skorað. Ég ætla að spá því að þessi leikur fari jafntefli eins og fyrri leikurinn og það verða skoruð mörk enda eru markahæstu leikmenn deildarinnar í báðum liðum. Segi að þetta endi eins og fyrri leikurinn 2-2 en geri ekki upp á milli hverjar skora.

Jón Stefán Jónsson, þjálfari Tindastóls
Loksins loksins komið að þessum stórleik. Ég ætla rétt að vona að aðsóknarmet verði sett og vel yfir 1000 manns láti sjá sig.
Leikurinn sjálfur verður fyrir margra hluta sakir mjög forvitnilegur. Ég held persónulega að þetta verði töluverð taktísk skák og ekki verði mikið skorað. Tvö frábær lið með tvö frábær þjálfarateymi að mætast! Valsstelpur hafa verið á miklu skriði í deildinni og unnið sannfærandi sigra á meðan Blikarnir hafa aðeins brasað við að klára sum lið. Evrópukeppnin gæti líka „truflað" Blikana en á móti kemur auðvitað gefa úrslit eins og gegn Sparta Prag þeim gríðarlegt sjálfstraust. Vel gert hjá þeim svo ég komi því að! Ég er rosalega hrifinn af þessu Blika liði. Auðvitað er ég aðeins litaður eftir veru mína í Val fyrir stuttu svo ég ætla nú að spá mínum fyrrum lærimeyjum sigri í þessum leik 0-1. Ég held að markið komi úr óvæntri átt, Lillý Rut setur blöðruna í markið með lærinu eftir horn. Margrét og Elín verða mjög ógnandi frammi en að lokum verður þetta sterkur varnarsigur hjá þeim rauðklæddu.

Svava Kristín Grétarsdóttir, Stöð 2 Sport
Þetta er bara úrslitaleikur tímabilsins, tvö alsterkstu lið deildarinnar að mætast. Þetta verður hörkuleikur, kaflaskiptur þar sem liðin munu skiptast á að hafa undirtökin í leiknum. Ég tel Val standa betur að vígi fyrir þessa viðureign, þeim hefur gengið betur í síðustu leikjum og munu þær að lokum fagna sigri. Þetta verður samt ekki auðvelt verkefni hjá þeim, Breiðablik spilaði gríðalega vel í Evrópuleiknum í vikunni og munu taka mikið með sér þaðan og sérstaklega sjálfstrausið, en Valur vinnur þetta, 3-1. Svo verða þetta Eyjakonurnar sem sjá um markaskorun, Margrét Lára með tvö og svo ætlar Fanndís að setja eitt gegn sínu gamla félagi en Berglind Björg skorar eina mark Blika.

Mist Rúnarsdóttir, Heimavöllurinn
Það er nánast ómögulegt að spá fyrir um þennan leik. Á góðum degi ber ekki mikið á milli liðanna og þegar um svona úrslitaleiki ræðir getur allt gerst. Valskonur hafa heilt yfir verið meira sannfærandi í sumar en það verður ekki spurt að því á sunnudaginn. Blikar koma inn í leikinn með sjálfstraust eftir sterkan sigur í Meistaradeildinni og þeirra vegna vona ég að þreytan eftir líkamlega erfiðan leik sitji ekki of þungt í þeim. Ég held að Valskonur komist yfir snemma í leiknum með marki Elínar Mettu. Alexandra jafnar svo fyrir Blikana þegar innan við 10 mínútur eru eftir. Við fáum svo dramatískt sigurmark á lokamínútunni. Það eru kandídatar úr báðum liðum sem vilja skora það en ég tippa á að það verði Hlín Eiríksdóttir og Valskonur fagni sigri. Ég vil annars hvetja fólk til að nýta þennan Super Sunday og drífa sig á völlinn. Þau allra hörðustu geta tekið tvo leiki sama daginn. Valið sér einn af síðdegisleikjunum og notið svo kvöldsins í Kópavoginum þar sem tvö bestu lið landsins fá loksins að útkljá titilbaráttuna.

Bjarni Helgason, Morgunblaðið
Þetta verður svakalegur leikur og ég spái mörkum. Valskonur eru með pálmann í höndunum reynslan er mun meiri Valsmegin. Það hentar Valsliðinu líka ágætlega að geta bara mætt nokkuð afslappaðar í leikinn því þeim dugar í raun jafntefli til þess að landa Íslandsmeistaratitilinum því fallið Keflavíkurlið verður lítil sem engin fyrirstaða fyrir Hlíðarendaliðið í lokaumferðinni á Origo-vellinum. Blikar verða að sækja og skora, eitthvað sem liðið hefur átt í vandræðum með, allt tímabilið. Stærstu möguleikar Blika í þessum leik liggja í því að Agla María verði í fantaformi. Ef að Blikar ná að einangra hana á vinstri kantinum gegn Elísu Viðarsdóttur þá gæti Blikaliðið átt séns en ef ekki þá verður þetta erfiður dagur fyrir Kópavogsliðið. Ég spái því að Valur vinni sannfærandi 3:1-sigur og Marka Lára opnar markareikninginn á fyrstu fimmtán mínútum leiksins. Valskonur hafa verið lang besta lið sumarsins og eiga titilinn skilinn.

Hjörvar Ólafsson, Fréttablaðið
Þá er loksins komið að leiknum sem allir hafa verið að bíða eftir í allt sumar þó svo að leikmenn hafi ekki viljað viðurkenna það. Þetta eru tvo langbestu lið deildarinnar sem mætast þarna. Þarna eru lið sem eru með sex til sjö landsliðsmenn hvort innanborðs og svo fyrrverandi landsliðsmenn einnig. Það eru margar spennandi rimmur inni á vellinum. Hvernig tekst Blikavörninni að halda aftur af Elínu Mettu Jensen og Hlín Eiríksdóttur sem hafa leikið frábærlega í sumar. Munu Berglind Björg Þorvalsdóttir og Agla María Albersdóttir ná að brjóta á bak aftur þétta vörn Valsliðsins. Hvernig pluma Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Alexandra Jóhannesdóttir sig í þessum stórleik og fleira. Mér finnst Valsliðið vera sigurstranglegra í leiknum þar sem liðið er reynslumeira og hefur spilað á meiri sannfærandi hátt heilt yfir í sumar. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir Val að Margrét Lára Viðarsdóttir hefur komist nærri sína fyrra formi í sumar en hún hefur bæði skorað mikið sjálf og laðað fram það besta í liðsfélögum sínum. Liðin eru bæði með mjög sóknarsinnaða og skemmtilega bakverði sem geta skapað mörk. Hjá Val er það Hallbera Guðný Gísladóttir sem hefur matað samherja sína og Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir og Ásta Eir Árnadóttir hafa verið duglegar að skapa færi hjá Blikum. Þetta verður hins vegar jafn og spennandi leikur sem mun ráðast á dagsformi. Blikar koma með gott sjálfstraust í leikinn eftir góð úrslit á móti Slaviu Prag. Refskák gömlu félaganna úr Vesturbænum verður skemmtileg þar sem sóknarþenkjandi hugsunarháttur Péturs Péturssonar mætir vel drilluðu liði Þorsteins Halldórssonar. Ég held að reynslubanki Valskvenna muni hafa betur á móti ungu og ofboðslega spennandi Blikaliði að þessu sinni.

Hulda Mýrdal Gunnarsdóttir, Heimavöllurinn
Jæja loksins komið af því. Ég vona að það séu allir lagðir af stað á völlinn með stóran popp. Fyrir viku síðan hefði ég spáð því að Valur myndi taka þetta 3-0. Mér fannst Blikar vera orðnar eitthvað óþarfa litlar í sér í síðustu leikjum (því liðið var ekki að vinna 4-0 síðustu leiki. Kröfurnar í dag maður.) Eftir atburðina í Meistaradeildinni þar sem Breiðablik mætti virkilega líkamlega sterku tékknesku liði og stóðst það próf held ég að liðið komi í sunnudagsleikinn með þann kraft með sér. Þær eru ungar í liði Blika svo þetta tekur þær ekki nema eina umferð í kalda pottinn að hrista þennan tékkneska barning af sér. En stuðið koma þær með áfram. Þær eru hinsvegar ekki eina liðið sem mætir í stuði því að lið Vals hefur verið óstöðvandi í allt sumar. Eins og Hybridbíll sem þarf ekki einu sinni að nota bensínið. Valsarar stíga á bensíngjöfina á sunnudaginn og vinna þetta 3-2.
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner